Lagaskrýtla nr. 1.

Leigubílalög banna fólki að aka hverju öðru um (nema ókeypis) og gefin eru út einkaleyfi til þess að taka gjald fyrir akstur. Það er því fámennur hópur sem löggjafinn beinlínis setur í einokunaraðstöðu á hverju svæði fyrir sig. Komið er í veg fyrir hvers konar hagræði í greininni með því að banna framsal leigubílaleyfa. Það er því ekki von á öðru en ökumenn sem telja sig geta boðið neytendum upp á góðan og öruggan akstur sitji um slík leyfi og fúlsi ekki við þeim jafnvel þótt losni þau ekki fyrr en við andlát fyrri leyfishafa.

Svona hljóðar 8. mgr. 9. gr. laga nr. 134/2001 um leigubifreiðar:

Heimilt er að leyfa eftirlifandi maka leyfishafa að nýta atvinnuleyfi hans í allt að þrjú ár eftir andlát leyfishafa, þó eigi lengur en til þess tíma er leyfishafi hefði misst leyfið fyrir aldurs sakir ef hann hefði lifað, þó aldrei skemur en tólf mánuði. Þegar maki er ekki til staðar er dánarbúi leyfishafa heimilt að nýta atvinnuleyfi hans í allt að þrjá mánuði eftir andlát leyfishafa en þó ekki eftir lok búskipta.

Í greinargerð með frumvarpinu er ekki minnst einu orði á þessa sérstöku reglu. Ekki heldur í greinargerð með lögum nr. 61/1995 sem giltu um þessi málefni fyrir tíð núgildandi laga. Sömu sögu er að segja um lögskýringargögn vegna laga nr. 77/1989 er giltu þar áður. Ég hef ekki kynnt mér lögskýringargögn vegna laga nr. 36/1970 en ekkjureglan var í gildi samkvæmt þeim lögum einnig.

Þar sem þetta ákvæði hefur verið í gildi í marga áratugi án nokkurrar sýnilegra röksemda eða rökræðu af hálfu löggjafans er e.t.v. kominn tími til að spyrja hvað sé eiginlega málið.

Ég er ekki hlynntur einkarétti lögmanna á því að flytja mál fyrir rétti og þætti það enn undarlegra ef erfingjar mínir fengju að nýta þann einkarétt sem mér var úthlutað eftir að ég félli frá.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Oddgeir Einarsson

Ég er kannski bara svona einfaldur, Ragnar Örn, en ég skil bara ekki hvað það er sem þér þykir svona stórt og flókið.

Oddgeir Einarsson, 30.10.2007 kl. 15:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband