Af trúmálum

Biskup og prestar Þjóðkirkjunnar, sem og aðrir talsmenn hennar, beita gjarnan þeirri röksemd að mikill meirihluti landsmanna sé skráður í Þjóðkirkjuna þegar talið berst að réttmæti þess að Þjóðkirkjunni sem tryggður með lögum stuðningur frá þeim sem ekki eru í þeim söfnuði. Við þennan málflutning hef ég ýmislegt að athuga, m.a. þetta: 

1. Ástæða þess að 80-90% landsmanna eru skráðir í Þjóðkirkjuna er sú að þeir eru sjálfkrafa skráðir í hana við fæðingu.

2. Barn sem skráð hefur verið í Þjóðkirkjuna getur ekki gengið úr henni fyrr en það verður fullorðið, sem er samkvæmt lögum við 18 ára aldur. Aldrei er þó vakin athugli á þessu og þarf viðkomandi að fara niður á Þjóðskrá og fylla út eyðublað til þess að framkvæma úrskráninguna.

3. Sá stóri hópur fólks sem er slétt sama um skráningarstöðu í Þjóðkirkjuna hefur engan hvata til að ómaka sig við að skrá sig úr kirkjunni. Ástæðan er sú að þeir sem ekki eru í neinu trúfélagi þurfa að greiða sama gjald og safnaðarmeðlimir trúfélaga til síns trúfélags. Eina breytingin er að gjaldið rennur til Háskóla Íslands. Þar af leiðandi greiðir fólkið að hluta til til guðfræðideildar. Nám við guðfræðideild er skilyrði þess að vera prestur Þjóðkirkjunnar. Þannig niðurgreiða þeir sem eru utan trúfélaga prestnám umfram þá sem eru í Þjóðkirkjunni. Það er ekki ýkja góður kostur fyrir þá sem vilja verja peningum sínum í annað en uppbyggingu Þjóðkirkjunnar.

4. Ef svona yfirgnæfandi meirihluti landsmanna vill vera í Þjóðkirkjunni, eins og talsmenn Þjóðkirkjunnar stagast á, hvers vegna þarf þá að neyða þessi 10-20% til að taka þátt í áhugamáli meirihlutans? 80-90% þjóðarinnar hljóta að geta rekið sína eigin kirkju á mannsæmandi hátt án þess að blanda öðrum í það mál.

= Ég legg til að þjóðkirkjan öll lög og reglur um trú manna verði afnumdar fyrir utan ákvæði stjórnarskrár um trúfrelsi. Þá geta allir trúað því sem þeir vilja og stofnað þau félög sem þá lystir án þess að blanda öðrum í þau mál.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ágætis athugasemdir hjá þér, Oddgeir. Ég vil samt taka eitt atriði fyrir:

„3. Sá stóri hópur fólks sem er slétt sama um skráningarstöðu í Þjóðkirkjuna hefur engan hvata til að ómaka sig við að skrá sig úr kirkjunni. Ástæðan er sú að þeir sem ekki eru í neinu trúfélagi þurfa að greiða sama gjald og safnaðarmeðlimir trúfélaga til síns trúfélags. Eina breytingin er að gjaldið rennur til Háskóla Íslands. Þar af leiðandi greiðir fólkið að hluta til til guðfræðideildar.“

Það hafa einhverjar breytingar verið undanfarið á því hvernig sóknargjaldið rennur til Háskóla Íslands. Draugasagan lífseiga um að það renni til guðfræðideildar er samt ekkert meira en einmitt það; draugasaga.

Reyndar segir þú það ekki hérna að ofan en mér finnst nauðsynlegt að koma því á framfæri að svo sé ekki. Guðfræðideild hefur nú verið tekin inn í hugvísindadeild og eftir því sem ég kemst næst ganga sóknargjöldin saman við almennt rekstrarfé Háskólans núna.

Það að guðfræðikennsla fái einhvern hluta sóknargjalda þeirra sem standa utan trúfélaga ætti því ekki að letja fólk að skrá sig utan trúfélaga.

Kalli (IP-tala skráð) 2.12.2007 kl. 20:25

2 Smámynd: Oddgeir Einarsson

Takk Kalli,

Peningarnir eru samt ekki undanskyldir guðfræðideildinni svo ég viti til og því renna þeir að hluta til þangað.

Það er samt ekki aðalatriðið heldur það að að fólk utan trúfélaga sé skikkað til að halda uppi háskólamenntun umfram þá sem eru í trúfélögum.

Þetta virðist vera gert til þess að fólk hafi engan hvata til þess að skrá sig úr Þjóðkirkjunni. Ég ef a.m.k. ekki séð nein rök með því að trúleysingjar eigi fremur en aðrir að halda uppi menntun í landinu.

Oddgeir Einarsson, 2.12.2007 kl. 21:04

3 identicon

Þar held ég að ég sé sammála þér. Hins vegar þykir mér mun betra að vita af Háskólanum, sérstaklega eins fjárþurfi og hann er, að fá sóknargjöldin mín.

Kalli (IP-tala skráð) 2.12.2007 kl. 23:40

4 Smámynd: Sigurjón

Alveg sammála pistlahöfundi.  Það er kominn tími til að aðskilja ríki og kirkju.

Sigurjón, 2.12.2007 kl. 23:40

5 Smámynd: Haukur Nikulásson

Tek undir þetta. Alveg í mínum anda. Amen!

Haukur Nikulásson, 3.12.2007 kl. 07:53

6 Smámynd: Ásta Kristín Norrman

Mér finnst sjálfsagt að þeir sem standa utan trúfélaga borgi samsvarandi upphæð eitthvað annað, en mér finnst maður ætti að fá eitthvað val. Maður getur þá valið um að borga til dæmis til Siðmenntar, eða eitthvert líknafélag. Ég skil ekki af hverju Háskóli Íslands, af öllum skólum, ætti að fá peningana.

Ásta Kristín Norrman, 3.12.2007 kl. 10:49

7 Smámynd: Gunnsteinn Þórisson

Ég kvitta undir það sem Oddgeir leggur fram...

Gunnsteinn Þórisson, 3.12.2007 kl. 12:30

8 Smámynd: Jóhann Gunnar Gunnarsson

Góðan dag Oddgeir

Ég varð að fá að skrifa um ummæli þin þar sem mér finnst þau óréttmæt.

Trúleysingjar eru minnihlutahópur á Íslandi og það er staðreynd tölulega hvað svo sem hægt sé að rýna í þær tölur út frá getgátum einum saman.  Því er ekki eðlilegt eins og svo oft vill verða að minnhlutahópar geti haft áhrif á líf og velferð annara með sínum skoðunum. 

Þú átt rétt á þínum skoðunum, en ekki rétt á að þvinga þær á aðra eða eyðileggja þær hefðir og venjur sem fólk hefur haft.

Ég bara trúi ekki að þínum tilvistargrundvelli sé ógnað bara vegna þess að það er til fólk sem er ósammála þér.  Lifðu lífinu án þess að velta þér upp úr þörfum og venjum annara

Kær kveðja

Jóhann Gunnar Gunnarsson, 3.12.2007 kl. 12:58

9 Smámynd: Oddgeir Einarsson

Þú gerir þér væntanlega ekki grein fyrir þeirri þversögn sem felst í færslunni þinni, Jóhann.

Oddgeir Einarsson, 3.12.2007 kl. 13:16

10 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

já Oddgeir fín færsla...en hugsa ekki flestir "kristnir" eins og Jóhann Gunnar?

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 3.12.2007 kl. 13:27

11 Smámynd: Oddgeir Einarsson

Sæl Anna,

Mér er slétt sama um fjölda fólks á bak við tilteknar skoðanir enda ræðst réttmæti þeirra ekki af því. Þrælahald þótti t.d. almennt séð í góðu lagi þegar Biblían var rituð án þess að slíkt hafi verið réttmætt.

Lögin fela í sér ákveðna þvingun í garð trúlausra, t.d. með því að þeir borgi laun presta með peningum sem eru teknir með sköttum. Afnám slíks fyrirkomulags felur ekki í sér neina þvingun í garð kristna manna.

Oddgeir Einarsson, 3.12.2007 kl. 13:58

12 identicon

Hann Jóhann hugsar á sjálfselskandi nótum algerlega án virðingar við aðra... meirihluti hefur ekkert með mannréttindi að gera

DoctorE (IP-tala skráð) 3.12.2007 kl. 14:48

13 Smámynd: Óli Jón

Þetta er afar góð grein og tímabær. Ég vísa í grein um neikvæða samningsgerð á vef talsmanns neytenda þar sem fram kemur að þögn getur aldrei verið túlkuð sem samþykki í nútíma þjóðfélagi nema ef vera skyldi þegar reynt var að pranga gömlum Framsóknar málgögnum inn á bændur og búalið í gamla daga. Þá er nýlegt mál um atferði flugfélaganna varðandi sjálfgefna merkingu í reitinn "Forfallatrygging" að fullu sambærilegt við það að sjálfgefið sé merkt við í reitinn "Þjóðkirkjan" í Þjóðskrá þegar upplýsingar um nýjan ríkisborgara eru færðar þar til bókar. Upplýsingar um það mál má finna hér.

Sjálfur var ég í samningssambandi við "Þjóðkirkjuna" þar til fyrir um þremur árum síðan, en þá hafði ég fyrir því að renna í Borgartúnið til að slíta þeim samvistum. Fram að þeim tíma hafði "vera" mín í "Þjóðkirkjunni" líklega verið túlkuð sem eindreginn stuðningur minn við stefnu hennar og athafnir, en því fór víðs fjarri. Helst vildi ég að hægt væri að fella úr gildi skírnar- og fermingarheiti mín, en Helgi Hóseason er skýrt dæmi um að inngangurinn í fordyri himnaríkis er sem fjórbreið hraðbraut þegar inn er leitað, en þyrnum stráð krókaleið ef út skal haldið.

Ég hef áður skorað á þjóðina að gera tilraun sem felst í því að hætta sjálfvirkri innskráningu í "Þjóðkirkjuna" og útskrá alla úr henni sem þar eru nú. Að nokkrum tíma liðnum væri þá raunverulega hægt að sjá fylgi þjóðarinnar við "Þjóðkirkjuna" með því að telja þá sem leggðu það á sig að renna í Borgartúnið og skrá sig í hana aftur. Þætti forkólfum "Þjóðkirkjunnar" ekki gott að fá með þessum hætti nákvæma mælingu á fylgi hennar meðal þjóðarinnar?

Óli Jón, 3.12.2007 kl. 16:06

14 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Óli Jón...frábær færsla þarna í febrúar

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 3.12.2007 kl. 18:12

15 Smámynd: Haukur Nikulásson

Oddgeir, hvernig væri að við stofnuðum söfnuð trúleysingja. Við gætum skipst á að vera æðstiprestur?! Tákn hins nýja trúleysissafnaðar væri t.d. bara .

Athugaðu að með þessu getum við fengið til kirkjugjaldið okkar og skilað því bara beint aftur til safnaðarins! 

Haukur Nikulásson, 4.12.2007 kl. 00:02

16 identicon

Mér finnst að hlutur þeirra sem segja sig úr Þjóðkirkjunnu ættu að renna til Raunvísindadeildar HÍ.

HRG.

Hjalti Rafn Guðmundsson (IP-tala skráð) 4.12.2007 kl. 01:00

17 Smámynd: Oddgeir Einarsson

Blessaður Hjalti og takk fyrir síðast. Vonandi gengur þér vel í raunvísindadeildinni ;)

Oddgeir Einarsson, 4.12.2007 kl. 09:39

18 Smámynd: Oddgeir Einarsson

Haukur: Ég tek fram að skoðanir mínar á lögum um trú hafa ekkert með trúarskoðanir mínar að gera og ég ætla ekki að lýsa yfir trú eða trúleysi hér. Það er mitt einkamál hverju ég trúi.

Ég hef þó fengið svipaða hugmynd og þú og kannaði málið. Það eru takmarkanir á því í lögum hvers konar lífsskoðanir geta fengið skráningu sem trúfélag. Ákvæði 3. gr. laga um skráningu trúfélaga mæla fyrir um það:

3. gr. Almennt skilyrði skráningar.
Skilyrði fyrir skráningu trúfélags er að um sé að ræða félag sem leggur stund á átrúnað eða trú sem tengja má við þau trúarbrögð mannkyns sem eiga sér sögulegar eða menningarlegar rætur.
Enn fremur er það skilyrði skráningar að félag hafi náð fótfestu, starfsemi þess sé virk og stöðug og að í félaginu sé kjarni félagsmanna sem reglulega iðka trú sína í samræmi við kenningar þær sem félagið er stofnað um og eiga til sóknar að gjalda hér á landi samkvæmt lögum um sóknargjöld.

Oddgeir Einarsson, 4.12.2007 kl. 09:43

19 identicon

Dýrkun Díonýsosar á sér langa og trausta hefð, og má auðveldlega tengja við trúarbrögð mannkyns sem eiga sér bæði sögulegar og menningarlegar rætur.

Nútíma Díonýsosarblót yrðu þó öllu settlegri heldur en þau voru þegar þau voru upp á sitt besta. Til að mynda yrði engum geithöfrum fórnað (hafi það þá nokkru sinni gerst). Ég sé bara fyrir mér snyrtilegt fólk, vel klætt, sem hittist einu sinni í mánuði til að bragða guðaveigar í góðum félagsskap. Sóknargjöld færu til innkaupa fleiri drykkja. Þátttakendur geta svo staðið upp og haldið litla tölu eftir því sem guðinn blæs þeim ræðuefni í brjóst.

Þorsteinn (IP-tala skráð) 4.12.2007 kl. 23:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband