Listin að vera með aulahúmor

Sem aðdáandi aulahúmors (orðaleikjakímnigáfu) langar mig að leggja orð í belg.

Ég er með þá kenningu að brandarar í þessum flokki verði annað hvort að vera mjög góðir eða mjög slæmir til að koma þeim efnaferlum af stað í heilanum sem leiða til ákveðinnar tegundar vellíðunar og stundum til hláturs. Meðalmennska á þessu sviði kemur engum í gott skap.

Ég skal taka dæmi.

Af einhverjum ástæðum telja knattspyrnulýsendur í sjónvarpi sig knúna til að slá á létta strengi af og til þessi misserin. Bjarni Fel var og er ekki í þeim pakka. Oft eru þetta athugasemdir þar sem lýsandinn hefur komið auga á grunnhráefnið í aulahúmor, sem er fleiri en ein möguleg merking sama orðs. Lýsendurnir kunna hins vegar lítið að vinna úr hráefninu og skella því svo til algerlega óunnu framan í áhorfendur.

Ég get tekið tvö dæmi um þetta í síðasta leik sem ég horfði á og Hörður Magnússon lýsti, Manchester United gegn Wigan Athletic á laugardaginn. Það fyrra var þegar leikmaður United, Danny Simpson hafði gert vel og þulurinn sagði eitthvað á þessa leið: „Danny Simpson búinn að vera góður, hann er þó ekki í Simpson fjölskyldunni“. Hér gætir þulurinn sig á því að tengja svo illa saman þær tvær hugmyndir sem hann taldi að nafnið Simpson myndi vekja í hugum áhorfenda að athugasemdin verður hreint óbærilega fyndin. Betri tenging, eins og „Simpson er búinn að skemmta áhorfendum í dag bæði hér á Sýn og á Stöð 2“, hefði falið í sér meðalmennsku en ekki komið af stað neinum skemmtilegum efnahvörfum í heilanum. Það, að tilkynna að Danny Simpson sé ekki í Simpson fjölskyldunni er hinsvegar óborganlegt. Hér á lýsandinn mikið hrós skilið fyrir hugrekki sem þarf til að segja nógu slæman aulabrandara til að hann sé fyndinn.

Hitt dæmið í úr sama leiknum var þegar leikmaður Wigan, Valencia að nafni, var með knöttinn. Eins og margir vita er borg á Spáni sem heitir Valencia og þar leikur lið sem ber nafn borgarinnar. lýsandinn var ekki lengi að koma auga á þessa tengingu og sagði: „Valencia er með boltann, þó ekki liðið“.

Sjálfur næ ég mér sjaldan upp úr meðalmennskunni þegar kemur að aulahúmor en vona að ég falli þeim mun oftar niður úr henni.


Varð Thelma Rut önnur?

Magnús Skarphéðinsson hefur umárabil reynt að koma þjóðinni í skilning um ýmis fyrirbæri sem ekki ekki fást útskýrð með vísan til viðurkenndra náttúrulögmála.

Eitt af þessu er að sumir geti umbreytt sér í líki einhvers annars.

Málflutningur Magnúsar Skarphéðinssonar hefur nú verið staðfestur af Morgunblaðinu sem segir að Thelma Rut hafi orðið önnur.

Til hamingju Magnús!


mbl.is Thelma Rut varð önnur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landakort á bensínstöðvum

Ég heyrði það í útvarpinu að maður gæti fengið landakort á öllum helstu bensínstöðvum landsins.

Handhafar kortanna fá 15% staðgreiðsluaflsátt þegar þeir kaupa sér landa.


Ef og hefði

Hvílík smáborgaramennska hjá Reykjavíkurborg að eyða milljónum í gjörning bara af því að það var kona frægs listamanns sem bað um það. Ef sama hugmynd hefði komið frá Jóni Jónssyni úr Breiðholti hefði verið hlegið að þessari klisjuhugmynd.


mbl.is Dr. Gunni fékk ekki boðskort
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frelsi og ábyrgð einstaklinga

Þar sem ég er almennt hlynntur frelsi og ábyrgð einstaklinga fagna ég því að framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu skuli þora að tjá skoðanir sínar um útlendinga. Honum er frjálst að líta á útlendinga sem vandamál hvað þjófnaði varðar og að taka verði harðar á útlendingum sem koma hingað til að stela.

Eins og ég sagði er ég einnig fylgjandi einstaklingsbundinni ábyrgð. Þar af leiðandi reyni ég að freistast ekki til þess að segja t.d. að fátækir Íslendingar séu vandamál og að taka verði harðar á fátækum þjófum þótt hlutfallslega fleiri meðal fátækra stundi innbrot en meðal einstaklinga sem hafa hærri tekjur.

Þetta þýðir ekki að ég sé á móti því að spornað sé við innbrotum og þjófnaði eða vilji ekki að reynt sé að koma í veg fyrir slíkt. Ef til greina kemur að ríkið skerði frelsi fólks í baráttunni gegn slíku verður slík frelsisskerðing að taka jafnt til allra, enda flestir, jafnvel í hópum útlendinga og fátækra Íslendinga saklaust og gott fólk.

Dæmi (en þó ekki að öllu leyti sambærilegt, nema ef ríkið ræki leigubifreiðarnar): Í Bandaríkjunum eru hlutfallslega fleiri svartir en hvítir sem brjóta gegn leigubílstjórum. Þrátt fyrir það eru flestur svertingjar heiðarlegir og að mínu mati ekki réttmætt ef þeir fengju ekki lengur að taka leigubíla. Aðgerðir til að vernda leigubílstjóra ættu að taka jafnt til allra, hvítra sem svartra, t.d. með því að koma skotheldu gleri á milli bílstjóra og farþega. 


mbl.is Verði reknir úr landi að lokinni afplánun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afstaðan til ofbeldis

Ég held að skýringuna á þessari þróun sé að finna í því að dómarar reyna að gæta samræmis í úrlausnum sínum, þ.e. að refsing sé sú sama fyrir sambærileg brot. Í fríkniefnamálunum hefur þróunin verið sú að refsing fer verulega eftir magni þess sem flutt er inn. Með sífellt stærri sendingum þyngjast refsingarnar. Kynferðisbrotin hafa auðvitað alltaf verið mjög alvarleg en hafa ekki verið að þróast á sama hátt og fíkniefnamálin. Þess vegna hefur verið meiri tregða til að þyngja refsingar í kynferðisbrotum en í fíkniefnamálum.

Þótt þetta sé ástæðan er það ekki þar með sagt að svona eigi þetta að vera. Mér finnst alveg réttmætt að bera saman refsingar við annars vegar viðskiptum með tiltekið efni, sem vissulega er hættulegt þeim er neytir þess, en engin er neyddur til að nota gegn vilja sínum, og hins vegar grófu ofbeldi gegn saklausu fólki sem ekki hefur valið að verða fyrir því.

Mér finnst að refsingar eigi að vera þyngri í ofbeldisbrotum en í málum þar sem enginn er beittur ofbeldi.


mbl.is Hæstiréttur nýtir ekki refsivaldið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skemmdarverk eru bara skemmdarverk

Þegar fólk fremur skemmdarverk á það engan rétt á sérmeðferð vegna skoðanna þeirra. Þeir sem vilja mótmæla of mikilli umhverfisvernd og styðja meiri virkjanir ættu t.d. ekki rétt á því að á þá væri hlustað í auknum mæli ef þeir yllu umhverfisverndarsamtökum tjóni með því að gerast „aktívistar“.
mbl.is Mótmæli gegn Íslandi í London
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ímynd mannanafna

Nokkur mannanöfn sem mér fannst óaðlaðandi sem barn:

1. Eiríkur Hauksson = Fátækur Hauksson (ekki að meikaða)

2. Pétur Ormslev = Pétur Ormslef (ekki neitt venjulegt slef)

3. Guðlaug = Guð laug (hverju?)

Vildi bara deila þessu fyrst ég mundi allt í einu eftir...

 


Siðferðisleg spurning

Ef sóðinn A vill elda mat handa B, sem sættir sig vel við sóðaskapinn, hvaða siðferðislega rétt hefur C á því að skipta sér af því? (báðir lögráða einstaklingar).

Eins og með allar gæðakröfur eiga þær að koma frá þeim sem málið varðar, þ.e. kaupandanum. Ef kaupendur vilja ekki hamborgara nema vera öruggir um ákveðið hámarksmagn örvera þá opnast markaður fyrir fyrirtæki sem gefa hamborgarastöðun vottorð ef þau eru undir mörkunum. Með þeirri aðferð borga ekki aðrir en hamborgaraæturnar fyrir heilbrigðiseftirlitið, kæri þær sig um heilbrigðið yfir höfuð.


mbl.is Margir skyndibitastaðir uppfylla ekki kröfur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jarðtenging

Er ég að muna vitlaust eða var ekki Veigar Páll með yfirlýsingar í fjölmiðlum í kringum síðustu landsleiki af því að hann fékk ekki að spila nógu mikið?

Nú er hann með prímadonnulæti af því að hann þurfti að fara útaf í einum leik.

Ég held að það sé alveg óhætt fyrir manninn að halda sig á jörðinni þótt hann eigi eitt gott tímabil í norska boltanum.


mbl.is Veigar ósáttur við ákvörðun þjálfarans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband