Grundvöllurinn

Ég bíð eftir dómi Hæstaréttar í þessu máli. Ástæðan er sú að þá fær maður einhverjar upplýsingar um skilyrði gæsluvarðhaldsins. Ég hef ekki séð neina umfjöllun um á hvaða grundvelli gæsluvarðhaldið er reist. Kannski af því að ég heyri ekki allar fréttir. Kannski ef því að ekkert hefur verið fjallað um það í fjölmiðlum.

Ef um er að ræða það skilyrði að hætta sé á því að sakborningar spilli sönnunargögnum eða reyni að hafa áhrif á vitni þá verður að telja ólíklegt að sú hætta sé enn til staðar nú, einu og hálfu ári eftir hrun. Ástæðan er sú að ef þessir aðilar eru líklegir til að spilla sönnunargögnum er auðvitað langlíklegast að búið sé spilla þeim nú þegar. Af hverju ættu þeir að fara að taka upp á slíku fyrst núna?

Héraðsdómarinn hlýtur þó að hafa byggt þetta á traustum grunni og það verður fróðlegt að sjá hver hann er.


mbl.is Kaupþingsmenn í gæsluvarðhald
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Miski

í þessu máli voru fjórum stúlkum dæmdar samtals 3,5 milljónir fyrir mjög alvarleg kynferðisbrot gegn þeim sem börnum.

Í dómi sama dómstóls, Héraðsdóms Reykjavíkur, í öðru máli frá 23. apríl sl., var lögfræðingi nokkrum dæmd sama fjárhæð í miskabætur og stúlkurnar fjórar skiptu á milli sín, þ.e. 3,5 milljónir. Hann hafði orðið fyrir því að fá ekki starf sem hann sótti um þrátt fyrir að dómnefnd hefði metið hann hæfari en þann sem fékk starfið.

Hvað skyldi það vera sem kallaði á að lögfræðingnum yrðu greiddar svo háar miskabætur samanborið við stúlkurnar fjórar? Rökstuðningur héraðsdóms er eftirfarandi:

„Eðli máls samkvæmt fylgir því álag að sækja um embætti héraðsdómara, leggja verk sín fyrir dómnefnd og fá álit hennar á lífsstarfi sínu. Það að stefndi, Árni, skuli með saknæmum og ólögmætum hætti ganga á svig við niðurstöður lögboðinnar dómnefndar og skipa einstakling, sem flokkaður er tveimur hæfnisflokkum neðar en stefnandi, og með brot af starfsreynslu stefnanda, er ólögmæt meingerð á æru og persónu stefnanda. [...]“

Ég verð að viðurkenna að ég hef samúð með lögfræðingnum sem þurfti að vesenast í því að sækja um starf og lenda síðan í því að maður með minni reynslu var ráðinn. En að bæturnar hafi verið jafn háar og stúlkurnar fjórar fengu samanlagt þykir mér umhugsunarvert. 


mbl.is Fimm ára fangelsi fyrir gróf kynferðisbrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband