17.11.2007 | 10:59
Af rónunum í Austurstræti
Vegna vinnu minnar geng ég daglega um Austurstræti. Stundum koma til mín rónar og biðja um pening. Sjaldnast er ég með klink á mér og verð því að tilkynna rónanum að því miður noti ég nær eingöngu kort. Ég bíð eftir þeim yfirvofandi degi þegar rónarnir verða komnir með posa. Mikið held ég að muni hlakka í rónanum þá þegar ég tilkynni honum að ég sé bara með kort.
Þrátt fyrir að ég hafi talið það herbragð snilldarlegt hjá Vilhjálmi borgarstjóra og ÁTVR, að fjarlægja litla kælinn í vínbúðinni í Austurstræti, og talið einsýnt að við það myndu rónarnir snúa lífi sínu til betri vegar (því hver nennir að drekka volgan bjór daginn út og inn), þá hafa þau undur og stórmerki gerst að rónarnir hafa haldið áfram að drekka áfengi. Sumir hafa reyndar snúið sér að kardimommudropum þar sem kjörhitastig til neyslu á þeim hærra en bjórs. Eftir stendur þó að margir rónar drekka enn bjór þótt ókældur sé.
Ég er samt ekki á því að ÁTVR eigi að gefast upp á viðleitni sinni til að fá rónana til að hætta að drekka. Mín tillaga er sú að fjárfest verði í hitaskápum, svona eins og er að finna á pítsustöðum, og öllum bjór verði komið þar fyrir. Hann væri þá kannski um 20°C heitur og með öllu ódrekkandi, jafnvel fyrir róna. Það myndi líka efla verslun með kardímommudropa.
Bloggar | Breytt 18.11.2007 kl. 19:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)