22.10.2008 | 21:39
Hversu mikið tekst Bretum að niðurlægja Íslendinga?
Einkafyrirtæki skuldar einhverjum peninga í Bretlandi. Íslenskir embættismenn sitja sveittir við að semja um hvernig íslenskir skattgreiðendur koma að því að borga skuldirnar.
Nú er ljóst að það er a.m.k. verulega umdeilt hvort íslenska ríkið sé skuldbundið að alþjóðalögum til að borga skuldir einkafyrirtækja í útlöndum.
Einnig er ljóst að Íslendingar eru búnir að taka út allan þann mannorðsskell sem mögulegur er vegna þessa máls vegna aðgerða og ummæla breskra yfirvalda. Réttast hefði verið að íslensk stjórnvöld hefðu líst því yfir að ekki yrði greidd króna umfram lagaskyldu samkvæmt dómsorði strax eftir að Darling og Brown komu fram með yfirlýsingar sínar og hryðjuverkalögunum var beitt.
Ef Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn vinnur þannig að hann setur það að skilyrði fyrir aðstoð að ríki í fjárhagsvandræðum greiði stórþjóð peninga sem það skuldar því ekki eigum við að afþakka alla aðstoð og segja okkur úr samstarfi sem byggir á slíku. Af hverju er ekki nóg að lýsa því yfir að við berum mikla virðingu fyrir Bretum og Hollendingum og öllum þeim sem telja sig eiga kröfur en að útkljá verði greiðsluskylduna fyrir dómstólum hverra niðurstöður við munum að sjálfsögðu virða. Hvernig getur verið eðlilegt að ætlast til meira af íslenska ríkinu og skattgreiðendum þess?
Að lokum vona ég að ríkistjórnin og embættismennirnir sem nú véla um að greiða hitt og þetta og taka jafnvel risalán fyrir því á eftirfarandi ákvæði stjórnarskrár Íslands:
40. gr. Engan skatt má á leggja né breyta né af taka nema með lögum. Ekki má heldur taka lán, er skuldbindi ríkið, né selja eða með öðru móti láta af hendi neina af fasteignum landsins né afnotarétt þeirra nema samkvæmt lagaheimild.
41. gr. Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.
Ég leyfi mér að draga í efa að lagaheimildin fyrir gjaldeyrisláninu frá því í vor nægi til að taka lán frá Bretum til að borga þeim eitthvað umfram lagaskyldu.
Hvað sem öllu þessu líður er ágætt að heyra að það er eitthvað lágmarkslífsmark í Geir og að hann vilji ekki láta kúga okkur. Geir lýsti því yfir í Kastljósi að hann væri andvígur því að fallast á það ef Bretar krefjast þess að við borgum þeim 200 milljarða. Ég vona að þetta mál sé honum nógu mikilvægt til að láta ekki forsætisráðherrastól sinn eða ríkisstjórnarsamstarf þvælast fyrir sannfæringu hans í þessu máli.
![]() |
Við munum ekki láta kúga okkur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)