13.11.2008 | 21:24
Er þetta frjálshyggjunni að kenna?
Margir hafa stigið fram undanfarið og sagt að frjálshyggjan væri dauð. Gott og vel, en hvaða hugmyndafræði er það sem er dauð?
Hugmyndafræði frjálshyggjunnar snýst ekki um peninga eða hagfræði heldur siðferði. Útgangaspunkturinn er sá að hverskonar ofbeldi sé ólíðandi. Skiptir þá engu hvaða einstaklingur það er sem beitir annan mann valdi. Það skiptir heldur engu hvort einstaklingurinn beiti ofbeldi í félagi við aðra eða hvort ofbeldinu sé gefið grænt ljós með lagasetningu fulltrúa meirihluta landsmanna. Eins skiptir það ekki hvort þolandinn er einn maður eða hópur manna. Ofbeldi er í öllum tilfellum siðlaust. Hefur þetta verið orðað á þann hátt að öllum eigi að vera frjálst að gera það sem þeir vilja svo lengi sem þeir brjóti ekki gegn réttindum annarra manna.
Samkvæmt frjálshyggjunni er samningsfrelsið sérstaklega mikilvægt því frjálsir samningar eru aðeins ein útfærslan á frjálsum og friðsömum samskiptum fólks. Lögmálið um samningafrelsið er hið sama á milli tveggja einstaklinga og á milli stórra fyrirtækja þar sem fyrirtæki eru aðeins fulltrúar eigenda sinna sem eru á endanum einstaklingar.
Í samningafrelsinu felst að enginn er skuldbundinn til nema hann kjósi svo. þeir sem ganga til samninga taka áhættuna af því hvort þeir treysti viðsemjanda sínum en geta krefið hann um ábyrgðir fyrir efndum, t.d. með veði í eignum eða ábyrgðaryfirlýsingum annarra en viðsemjandans.
Í þessu ljósi er fjarstæðukennt að kenna frjálshyggjunni um það ef lögum er þannig háttað að aðrir en Landsbankinn og þeir sem sömdu við hann um að geyma peninga á ákveðnum vöxtum geti orðið ábyrgir vegna þess að Landsbankinn gat ekki staðið við samninginn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)