18.3.2008 | 22:15
Um hvað snýst umræðan?
Ímyndum okkur tvær afskekktar eyjar, A og B.
Á eyju A ríkir lýðræðislega kjörin stjórn sem pyntar og drepur alla sem eru henni andvígir auk þess að leggja háa skatta á minnihlutann og styrkja meirihlutann með peningagreiðslum. Á eyju A ríkir semsagt meirihlutakjörin ógnarstjórn.
Á eyju B ríkir einræðisstjórn sem ríkir með hervaldi og er ekki kosin af neinum. Þessi stjórn virðir hins vegar grundvallarmannréttindi allra til lífs, tjáningar o.s.frv. og hefur það eina markmið að koma í veg fyrir valdbeitingu og ofbeldi landsmanna gagnvart hverjum öðrum. Á eyju B ríkir því frjálslynd einræðisstjórn.
Dag einn ákveða stjórnvöld á eyju A að steypa stjórn eyju B af stóli og sameina hana sínu lýðræðislega ríki, vitandi þá gefnu staðreynd að ríkjandi ógnarstjórn nyti einnig stuðnings meirihluta fólks á eyjunum eftir sameininguna.
Væri réttlætanlegt af hálfu stjórnvalda á eyju A að koma á lýðræði í þessu tilviki jafnvel þótt við gefum okkur þá forsendu að enginn léti lífið í átökum um eyju B?
Þögli minnihlutinn svarar þessu neitandi og vonar að umræður um réttmæti tiltekinna yfirvalda yfir fólki snúist meira um réttmæti aðgerða stjórnvalda gagnvart fólkinu sínu en hvort slík stjórnvöld og aðgerðir þeirra njóti stuðnings meirihluta landsmanna.
Oft snúast umræður um alþjóðapólitík um að koma þurfi á lýðræði hér og þar og að virða þurfi rétt þjóða til að mynda eigið ríki á tilteknu landsvæði. Hvorugt tryggir á nokkurn hátt að mannréttindi einstaklings á tilteknu svæði verði betur virt.
Ef mannréttindi einstaklinga væru í forgrunni snerist umræðan um Tíbet um hvort einstaklingar á landsvæði Tíbet yrðu síður þaggaðir niður, drepnir eða pyntaðir ef kommúnistastjórninni yrði komið frá. Einnig, ef mannréttindi væru útgangspunkturinn í umræðunni, þá væri umræðan um gróf mannréttindabrot kommúnistaflokksins í Kína gegn eigin fólki ekki síður í brennidepli en málefni Tíbets. Enda eru mannréttindi Kínverja jafnmikilvæg og mannréttindi Tíbeta.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)