20.4.2007 | 12:05
ZERO mannréttindi
Katrín Oddsdóttir, meistaranemi í mannréttindum við University of London, sakar Vífilfell um lög- og mannréttindabrot í Fréttablaðinu í gær.
Katrín telur að auglýsingarherferð vegna ZERO kóladrykksins brjóti gegn 18. grein jafnréttislaga. Auk þess rekur hún 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu (MSE) og kemst að því að auglýsingarnar séu mannréttindabrot samkvæmt Evrópulögum. Vísar Katrín einkum til 2. mgr. 10. gr. MSE í því sambandi. Í því felst grundvallarmisskilningur á umræddu tjáningarfrelsisákvæði MSE. Ákvæði 2. mgr. 10. gr. MSE felur ekki í sér neitt sjálfstætt bann við tjáningu heldur setur skorður við því hversu mikið aðildarríki mega skerða tjáningarfrelsið með lögum.
Ef fullyrðing Katrínar, um að auglýsingarnar séu brot á jafnréttislögum, er rétt, yrði álitaefnið um 10. gr. MSE það hvort takmörkun jafnréttislaga á tjáningarfrelsi Vífilfells sé mannréttindabrot. Fjarstæða væri hins vegar að halda því fram að auglýsingarnar brytu gegn 10. gr. MSE.
Annað dæmi um tilvik þar sem reynt gæti á 10. gr. MSE væri ef einhver fullyrti í dagblaði um lög- eða mannréttindabrot fyrirtækis vegna auglýsingaherferðar. Slík ummæli gætu auðveldlega talist refsiverð samkvæmt ákvæðum 25. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og leitt til sektar eða fangelsisvistar. Gæti þá reynt á hvort slík refsing bryti gegn tjáningarfrelsi skv. 1. mgr. 10. MSE eða hvort skerðingin á tjáningarfrelsinu rúmaðist innan 2. mgr. 10. gr. MSE.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.