21.4.2007 | 14:48
Efling lýðræðis?
Í kosningunum fyrir 4 árum hlutu 5 flokkar kjörna menn á Alþingi. Samkvæmt skoðanakönnunum liggur fyrir að þessir flokkar hafa misst hluta fylgisins yfir til nýrra framboða, þótt óvíst sé hversu mikið nýju framboðin muni hljóta í næstu kosningum.
Nú eru auglýsingar almennt til þess fallnar að auka fylgi flokka í kosningum. Annars væru flokkarnir varla að auglýsa eða hafa áhyggjur af því að aðrir auglýsi meira en þeir, sbr. samkomulag þeirra um auglýsingakostnað.
Samkvæmt lögum nr. 162/2006 um fjármál stjórnmálaflokka var markmið laganna að efla lýðræðið. Þessi lög voru auðvitað einungis samþykkt af þeim stjórnmálaflokkum sem fengu sæti á Alþingi í kosningunum fyrir 4 árum. Í eflingu lýðræðisins felst að mati þessara flokka það að banna einstök fjárframlög til stjórnmálaflokka umfram 300 þúsund. Þar sem þetta takmarkar auðvitað allt starf, ekki síst kynningarstarf flokkanna, þá er einnig ákveðið að flokkarnir sem eru á þingi skammti sjálfum sér fé af fjárlögum, m.a. til að auglýsa. Framboð sem njóta fylgis nú en ekki fyrir 4 árum fá hvorki framlög umfram 300 þúsund né peninga af fjárlögum.
Nú verður spennandi að sjá hvort að flokkarnir sem sitja á Alþingi hafi með lögum sínum tekist að koma í veg fyrir að missa svo mikið fylgi til nýrra framboða að þau fái fulltrúa á þingi.
Væri þá markmiðinu um að efla lýðræðið náð?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.