Fulltrúi í öryggisráði versus gjaldkeri húsfélags

Hvernig mun hugsanleg seta fulltrúa Íslands í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna stuðla að betri heimi?

Eru Íslendingar A) betur að sér í þeim málum sem á reynir í ráðinu en aðrar þjóðir? Eða B) er stefna Íslands friðsamlegri en stefna annarra ríkja sem vilja taka sætið?

Ef hvorugt á við,  A) eða B), liggur fyrir að peningum íslenskra skattborgara verður eytt í kosningabaráttu án þess að það stuðli að betri heimi. Hefur þá ekki verið spurt að því hvernig þetta gagnast Íslandi.

Má ég þá að biðja um að peningunum verði skilað aftur til þeirra er öfluðu þeirra, skattborgaranna, sem þá hafa meiri möguleika að láta gott af sér leiða, s.s. með fjárframlögum í þróunaraðstoð eða með því að auka viðskipti við slík lönd.

Það er með ólíkindum að ríkisstjórnir Íslands sem staðið hafa að framboðinu hafa aldrei rökstutt hvernig það muni leiða til betri heims. Einungis hef ég heyrt orðagjálfur um að „við verðum að axla ábyrgð í hinu alþjóðlega samfélagi og vera tilbúin að taka þátt í þessu samstarfi þjóða.“

Ef málið snýst um að bjóðast til að axla sömu byrðar og aðrar þjóðir hafa þurft að gera hefði mátt skila inn umsókn án þess að eyða krónu og leyfa hinum löndunum að kjósa okkur inn. Svona eins og þegar einhver tekur að sér að vera gjaldkeri í húsfélagi.

Ég hef aldrei heyrt um kosningabaráttu fyrir því að vera gjaldkeri húsfélags. Ef fjölskyldufaðir færi að eyða hundruðum þúsunda í kosningabaráttu fyrir því að vera gjaldkeri í blokk skuldaði hann fjölskyldu sinni skýringar á því. Annað hvort með því að hann myndi gera mun betri hluti en aðrir í þessu starfi, eða, og líklega mikilvægara, hvernig það kæmi fjölskyldunni vel að húsbóndinn tæki þetta að sér.

Ef engar skýringar fengjust er eðlilegast að álykta sem svo að framboðið sé bara persónulegt hégómaflipp húsbóndans og bruðlið með peninga fjölskyldunnar óréttmætt með öllu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband