26.11.2008 | 23:17
Valdaráni hótað - hvar eru hvítliðarnir?
Úr ræðu laganemans frá HR:
"Friðsamleg mótmæli henta vel á friðartímum en hér hefur verið gerð árás á grunngildi þau sem stjórnarskrá landsins ver og það jafngildir stríðsyfirlýsingu gegn fólkinu í þessu landi. Því segi ég; ríkisstjórnin fær EINA viku til þess að boða til kosninga og viðurkenna getuleysi sitt til að leiða okkur út úr þeim hörmungum sem hún hefur komið okkur. Að öðrum kosti þá fyllum við fólkið í landinu þingið, stjórnarráðið og ráðherrabústaðina og berum þá út sem ábyrgir eru! Ég tel slíka aðgerð ekki vera brot á lögum og reglu í ljósi þeirrar aðfarar sem gerð er að réttarríkinu og lýðveldinu Íslandi um þessar mundir!"
Þessi orð tóku þúsundir manna undir með fagnaðarlátum sínum. Síðan gekk hluti hópsins í átt að lögreglustöðinni að Hverfisgötu og hóf að taka lögin í sínar hendur með því að brjóta upp hurðina á lögreglustöðinni þegar þeim fannst ekki nógu hratt brugðist við kröfum sínum um að láta handtekinn mann lausan úr haldi. Lögfræðilegur ágreiningur var um réttmæti ákveðinnar handtöku eins og gerist reglulega þegar þvingunaraðgerðum lögreglu er beitt og er þá yfirleitt leyst úr slíku í réttarkerfinu en ekki með árásum á lögreglubyggingar.
Nú er ekki langur tími þangað til þessi einnar viku frestur rennur út og búast má við að hótuninni um valdarán verið framfylgt og að sama fólk fari að ráðast inn í Alþingi og " ráðherrabústaði" til að fjarlægja þar óæskilega ráðamenn.
Ég hef mikinn áhuga á að vita hvort lögreglan hafi gert ráðstafanir til að stöðva boðað valdarán. Er ekki kominn tími til að safna hvítliðum á nýjan leik eða hefur lögreglan nægan mannafla?
Óánægð með ræðu á heimasíðu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ég er fyllilega sammála þér - mín spurning er bara hvar eru fjölmiðlarnir? Taldi enginn ástæðu til að spyrja hana út í þessi ummæli og hvort hún væri af heilindum að hvetja til byltingar í einu eða öðru formi.
Ég treysti að samaskapi á að þessi unga kona verði kölluð inn til skýrslutöku þegar aðeins róast í þjóðfélaginu. Aftur á móti ef einhver obeldis eða skemmdarverk verða framin þegar þessi - frestur - rennur út, að hún verði gerð ábyrg orða sinna.
Tómas Þ. Ómarsson (IP-tala skráð) 26.11.2008 kl. 23:38
Mér finnst nú í góðu lagi Katrín mótmæli hressilega þannig að eftir er tekið.
þeir sem eiga sök á hruninu, liggja undir grun um að hafa forðað sínu með tugmilljarða lántöku og misnotkun á sparireikningum fólks. Núna eru þessi snillingar að spá í kaup á bönkum og tryggingafélögum.
Eina manneskjan sem á von á ákæru frá ríkisbankastjórunum er Agnes Bragadóttir fyrir að hafa birt sannar upplýsingar í blaði allra landsmanna!
Sigurjón Þórðarson, 26.11.2008 kl. 23:39
Ég lýsi mig reiðubúinn til að ganga til liðs við hvítliða. Það er margt sem fór aflaga í þjóðfélaginu. Það eitt og sér felur ekki í sér að eitthvað skrílsræði eigi að taka við.
Andri (IP-tala skráð) 26.11.2008 kl. 23:51
Ég hef ekkert við það að athuga að fólk láti skoðanir sínar í ljós og það á áberandi hátt og hressilega.
Skoðun þessa einstaklings var sú að það ætti að fjarlægja ráðamenn með valdi úr byggingum sem þeir starfa í ef ekki yrði ákveðið að boða til kosinga.
Reynslan sýnir að það er hópur fólks sem var á síðustu laugardagsmótmælum sem er reiðubúinn að beita handafli til að ná sýnu fram, sbr. Hverfisgötumálið sl. laugardag.
Það eina sem ég var að velta fyrir mér var hvort og þá hvernig lögregla væri undirbúin undir næstu átök sem boðuð hafa verið af mótmælendum ef ekki verður orðið við kröfum þeirra um kosningar.
Oddgeir Einarsson, 26.11.2008 kl. 23:52
Mér finnst eðlilegt að á útifundum af þessu tagi séu notuð sterk orð og myndlíkingar. Það er einfaldlega eðli máls samkvæmt. Alveg á sama hátt og þegar ráðamenn halda því fram að IMF lán verði ekki afgreidd ef ákveðið er að ganga til þingkosninga fyrir lok kjörtímabils. Stjórnmálamenn hafa líka haldið því fram að lýðræðið felist í því að það sé kosið á 4 ára fresti og að krafa um annað sé aðför að lýðræðinu. Þeir ljúga blákalt hver upp á annan á hinu háa Alþingi og kalla "éttann sjálfur" utan úr sal þegar kollegar þeirra tala.
Ekki hefur verið sýnt fram á neitt samhengi milli ræðu laganemans á Austurvelli annars vegar og óeirða nokkurra ólátaseggja við lögreglustöðina hins vegar. Varla telja menn að blessuð stúlkan hafi átt sök á því síðarnefnda.
Ekki sé ég hvers vegna lögregla ætti að yfirheyra stúlkuna um ræðuna sem hún hélt. Ekki þurfum við samþykki lögreglunnar fyrir skoðunum okkar eða tjáningu. Er það kannski vilji manna að lögreglan og refsivörslukerfið stýri skoðanaskiptum í þessu landi.
Eins og þú vafalaust þekkir af lestri á Leviathan eftir Thomas Hobbes þá var höfundur þeirrar bókar ekki á því að almenningur hefði mikinn rétt gagnvart stjórnvöldum. Hobbes taldi að til að mynda samfélag manna hafi menn gert með sér "samfélagssamning" um að afsala sér öllum völdum til einvaldsins "the sovereign" sem mætti fara sínu fram hafandi þau völd. Ekki ósvipað þeim kenningum sem halda því fram að þeir sem hafi verið lýðræðislega kjörnir megi beita valdi sínu að vild næstu fjögur ár án afskipta almennings.
En eins og þér einnig er ljóst þá gerir Hobbes þá undantekningu að þótt vald stjórnvalda sé algjört, þá megi almenningur rísa upp gegn stjórnvöldum sem kúga hann og að almenningur megi leita aðstoðar afla utan ríkisins til að koma slíkum stjórnvöldum frá völdum. Þannig að jafnvel hörðustu fylgismenn mikils valds stjórnvalda skilja þó eftir rétt almennings til að grípa í taumana.
Aldrei í Íslandssögunni hefur jafnlítill hópur manna steypt íslenskri þjóð í annað eins hyldýpi og nú á undanförnum misserum. Svo virðist sem landið hafi orðið leikvöllur samviskulausra braskara sem hafa blekkt almenning, bæði hér og erlendis, og stjórnvöld hafi annaðhvort verið þátttakenndur í þessu eða óhæf til að standa þann vörð um hag almennings sem ætlast má til. En eitt eru bæði auðkýfingarnir og stjórnvöld sammála um: "Almenningur skal standa skil, bæði á eigin skuldum og skuldum sem urðu til vegna glannaskapar og aðgæsluleysis braskara og stjórnmálamanna". Og almenningur á rétt á því að hafa sterkar skoðanir á þessu.
Lýðræðisleg stjórnskipan væri ekki til ef ekki hefðu komið til mótmæli almennings í Frakklandi. Mótmæli eru því nauðsynlegt neyðarréttartæki almennings þegar stjórnmálamenn fara illa með vald sitt eða verða berir að því að ráða ekki við hlutverk sitt.
Ég hef meiri áhyggjur af lagadeild Háskólans í Reykjavík þegar svona stór hluti laganema gerir opinbera kröfu um að netmiðill skólans birti ekki skoðun sem þeim mislíkar. Er nokkuð til sem lýsir afvegaleiðingu menntakerfisins jafn vel? Verða slíkar ritskoðunarkröfur taldar eðlilegar meðal lögfræðinga framtíðarinnar. Eru þær í samræmi við það sem kennt er í skólanum?
Hreiðar Eiríksson (IP-tala skráð) 27.11.2008 kl. 00:03
Blessaður og sæll Oddgeir.
Ég hef lengi lesið síðuna þína reglulega og haft mikið gaman af. Bendi á færslu sem ég skrifaði um ræðuna: http://mwezi.blogspot.com/2008/11/stolt-og-glei-sklans-mns.html
Verandi einnig laganemi ákvað ég að reyna að bera eitthvað af rangfærslum Katrínar til baka. Þú ert líklega einn af fáum morgunblaðsbloggurum sem hefur áhuga á staðreyndum og rökstuðningi svo ég vona að þú hafir ánægju af lestrinum.
Kv, Máni.
Máni Atlason (IP-tala skráð) 27.11.2008 kl. 00:24
Á engan máta var ég að gefa í skyn að mótmæli væru annað en af því góða og það taka hressilega til orða, hvort heldur á alþingi eða austurvelli væri annað en til þess að styrkja frjálsa umræðu í okkar samfélagi.
Þegar einstaklingar - hvort heldur þeir sem eru við völd eða þeir sem andmæla þeim - snúast til ofbeldis sbr. húsbrot það við hverfisgötu 113 eða þá hvetja til ofbeldis í formi hótanna
"ríkisstjórnin fær EINA viku til þess að boða til kosninga"... " Að öðrum kosti þá fyllum við fólkið í landinu þingið, stjórnarráðið og ráðherrabústaðina og berum þá út sem ábyrgir eru!"
þá hafa þeir hinir sömu brotið gegn því réttarríki sem við búum í. Því sama ríki sem verndar okkar borgararlegur réttindi. Það er ekki hægt að hafna og velja - að segja að aðgerðir ríkisins séu fasisim ( sbr. það að lögreglan haldi uppi landslögum ) en það að múgur brjóti sér inngöngu inn á höfuðstöðvar lögreglu höfuðborgarinnar sé á einhvern máta réttlætanleg og réttmæt framganga er fásinna!
Við þurfum að ákveða okkur sem samfélag hvort við ætlum að sækja rétt okkar - og það er engin spurning að á okkur hefur verið brotið - í formi þess samfélags sem hér er, með öllum þeim lögum og reglum sem því stjórna eða hvort fólk vill fara út í byltingu gegn valdstjórninni!
Ég fyrir einn hef engan áhuga á að hvat sé til byltingar, ofbeldis eða hótanna í mínu nafni.
Tómas Þ. Ómarsson (IP-tala skráð) 27.11.2008 kl. 00:28
Hreiðar: Hvaða ritskoðun ertu að tala um? Ræðan varpar ekki mjög fagmannlegu ljósi á lagadeildina mína og mér finnst frekar vandræðalegt að skólinn sé að halda henni svona á lofti. Það er allt málið.
Málfrelsi þýðir ekki að öllum beri skylda til að halda þínum skoðunum á lofti.
Páll Jónsson, 27.11.2008 kl. 00:28
Ég held að Hreiðar hafi saltað þetta mjög vel.
Þessar aðgerðir verað flokkaðar sem kjánalegar í sögulegu samhengi.
Málfrelsi er akkurat að orðin fái að heirast þar sem þau eiga heima.
Þetta er einfallt. Hún er nemi í skólanum og því má ræðan birtast þar.
Hún er einnig að mótmæla ástæandinu í þjóðfélaginu á löglegum mótmælafundi og því má ræðann birtast hvar sem er.
Ótrulegir kjánar sem þið getið verið Páll og Máni.
Gunnar Örvar. (IP-tala skráð) 27.11.2008 kl. 01:32
Það er verið að brjóta lagaréttindi á öllum Íslendingum með því að skuldbinda þá, án þess að láta reina á réttmæti lagalegra hliða t.d Icesave. Þeir hafa ekki rétt til þess. Skoðið það frekar.
Laganemi benti á þetta. Hún heitir Katrín. Hetja sú stelpa.
Sorglegt að sjá skólafélaga hennar suma hverja.
Helgi (IP-tala skráð) 27.11.2008 kl. 01:36
Huh? Ég hef hingað til ekki orðið var við að við nemarnir hefðum óskoraðan rétt til að koma skoðunum okkar á framfæri á heimasíðu skólans. Ef það er staðreynd þá loka ég bloggsíðunni minni snarlega, ég fæ miklu fleiri lesendur ef ég tjái mig beint á www.ru.is !
Páll Jónsson, 27.11.2008 kl. 01:45
Á tímum lögbrota og siðspilts umhverfis í landi sem er af þeim sökum á leið á hausinn. Þá standa upp nokkrar hræður og mótmæla Konu sem þorir að setja sannleikann á sterkan myndrænann hátt.
Þvílíkar mannleysur !
Ótrúlegt ! (IP-tala skráð) 27.11.2008 kl. 01:59
Sæll Máni og takk fyrir að benda á góða færslu.
Ég verð að vera sammála þér varðandi gagnrýni á lögfræðilegt innlegg dúxins í þjóðmálaumræðuna. Ég er reyndar sammála dúxinum í því eina atriði að það geti verið stjórnarskrárbrot að mega ekki bera réttarágreining undir dómstóla en hallast þó að því að þar eigi 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar um rétt til að bera mál undir dómstóla fremur við en jafnræðisregla 65. gr. sem dúxinn vísar til.
Fullyrðingarnar um brot á eignarrétti, tjáningarfrelsi og ákvæðum um þrískiptingu ríkisvalds eru hins vegar algerlega úr lausu lofti gripnar og hlýtur að vera óheppilegt fyrir lagadeild HR ef dúx skólans heldur slíkri lögfræðilegri fjarstæðu fram. Ég neita að trúa að menn fái rétt á prófi fyrir slíkar niðurstöður.
Oddgeir Einarsson, 27.11.2008 kl. 09:21
Ég er sammála Oddgeiri hvað varðar 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar en tel mega leiða rök að því að það fari gegn jafnræðisreglunni þegar bannað er að lögsækja tiltekna aðila en ekki aðra. Það er þó annað mál.
Hinar fullyrðingarnar, sem þú tekur ekki undir, eru hugsanlega fullstórar svona einar og sér. Þær eru þó ekki lögfræðilegar fjarstæður nema í mjög þröngum skilningi íslensks réttar eins og hann hefur verið kenndur í H.Í.
Það sem mér finnst alvarlegra í þessu sambandi kemur þó ekki fram í ræðu laganemans. Það eru möguleg brot íslenskra stjórnvalda gegn skuldbindingum Íslands samkvæmt EES samningnum. Þau kunna að valda því að íslenska þjóðin verður skaðabótaskyld fyrir upphæðum sem eru langt umfram inneignir á Icesave og Kaupthing Edge.
Ég fagna því að laganemar taki þátt í opinberri umræðu og finnst það bera lagadeildum fagurt vitni. Mér finnst að starfandi lögmenn og lögfræðingar ættu fremur að hrósa slíku en að fordæma það, burtséð frá því hvort þeir telja skoðanirnar réttar eða ekki. Varla er rétt að leggja lögfræðilegt mat á mál laganemans þar sem forsendur fyrir niðurstöðum hennar liggja ekki fyrir.
Ég vil gjarnan minna á grein Aðalheiðar Ámundadóttur í Lögfræðingi - tímariti laganema við Háskólann á Akureyri, sem kom út í febrúar á þessu ári. Aðalheiður var þá á 2. ári laganáms en greinin og niðurstöður hennar vöktu mikla athygli og viðurkenningu fyrir að vera vandaðar og fengnar með lögfræðilega réttum hætti.. Bæði greinin og niðurstöður hennar vöktu einnig harða gagnrýni bæði fræðimanna og hagsmunaaðila sem sögðu niðurstöðurnar rangar og andstæðar niðurstöðu sem fengist með réttri lögfræðilegri aðferð. Lögfræðin er fræðigrein sem er í stöðugri gerjun og mótun en fjarri því að hafa höndlað hinn eina endanlega sannleika um eðli laga og hina einu réttu lögfræðilega réttu aðferð.
Hreiðar Eiríksson (IP-tala skráð) 27.11.2008 kl. 12:06
Sæll aftur Oddgeir.
Ég er sammála þér með 1. mgr. 70. gr., eins og ég hafði raunar þegar bent á hér: http://mwezi.blogspot.com/2008/11/stjrnskipunarrttarkennsla-vi-hr.html fyrir nokkrum dögum síðan.
Máni Atlason (IP-tala skráð) 27.11.2008 kl. 13:09
Sæll Hreiðar,
ég held reyndar að það hafi ekki hvarflað að neinum sem horfði á þessa tilteknu ræðu að megininntak hennar hafi snúist um lögfræði. Það sem ég hugsaði þegar ég heyrði hótanirnar um valdaránið og fögnuð fjöldans við þeim var að nákvæmlega það yrði stórfrétt en ekki lögfræðileg túlkun ræðumannsins á ákvæðum stjórnarskrárinnar.
Ég fordæmi að sjálfsögðu ekki opina umræðu um lögfræði sama hversu ósammála ég er viðkomandi og veit ekki hvort þú ert að ýja að því að ég hafi fordæmt slíkt. Ég er heldur ekki að fara fram á að ekki megi bera á torg lýðskrum og hótanir um valdarán þótt mér mislíki síkt stórlega.
Oddgeir Einarsson, 27.11.2008 kl. 18:04
Já, það er réttmæt ábending hjá þér. Upphafspistillinn snerist ekki mikið um lögfræði þótt þú hafir svo tæpt lítillega á henni í andsvari aðeins neðar.
Í lýðræðisþjóðfélagi getur það varla talist hótun í sjálfu sér ef almenningur teldi nauðsynlegt að hrekja spillt stjórnvöld af höndum sér. Slíkt hefur jafnan þótt eðlilegur hlutur og raunar, líkt og ég hef bent á, bæði undanfari og ákveðin forsenda lýðræðisins, þ.e. að almenningur geti ef aðrar aðferðir bregðast losað sig við stjórnvöld og komið á raunverulegu lýðræði.
Taki menn hins vegar orð Katrínar bókstaflega þá eru þau talsverð tíðindi í íslensku samfélagi. Ég kaus nú reyndar að telja þau myndlíkingu eða líkindamál fremur en boðun raunverulegra aðgerða af því tagi sem hún ræddi um. Svo voru aðrir sem kusu að skilja þetta bókstaflega og hófu fabúleringar um að þeir vonuðu að lögreglan byggi sig undir einhverskonar byltingartilraun. Þá erum menn í raun að grípa boltan á lofti, sama boltann og ræðumaðurinn varpaði frá sér, og senda hann af afli til baka með því að tjá vonir um að lögregla búi sig undir að lemja á almenningi. Að mínu mati er hvorttveggja óviðeigandi á þessum tímum, sjálfur mundi ég hvorki lýsa vonum um byltingu né einhverskonar viðbúnað lögreglu til að bregðast við yfirvofandi byltingu. Það er tilefni til hvorugs, hvorugt er viðeigandi og hvorugt er málefnanlegt um þessar mundir. Ef hins vegar þjóðin sæi ástæðu til að setja stjórnvöld til hliðar, þá væri hún í fullum rétti til þess að mínu mati. Ég tel hins vegar að lögregla gæti vart með löglegum hætti blandað sér í slíkt enda er hún ekki pólitískt verkfæri heldur byggist tilvera hennar á að vernda og þjóna almenningi, ekki valdhöfum gegn almenningi.
Hreiðar Eiríksson (IP-tala skráð) 27.11.2008 kl. 23:03
Sæll aftur Hreiðar,
Þótt ég hafi ekki mikla trú á því að Íslendingar grípi til ofbeldis gagnvart lýðræðislega réttkjörnum yfirvöldum þá sýnir árásin á lögreglustöðina að það má ekki útiloka neitt í hita leiksins. Ég sé ekkert að því að vonast til að lögreglan búi sig undir það versta þó hún voni það besta.
Lítum aðeins á hin umdeildu orð ræðumannsins:
„Ríkisstjórnin fær EINA viku til þess að boða til kosninga [...]. Að öðrum kosti þá fyllum við fólkið í landinu þingið, stjórnarráðið og ráðherrabústaðina og berum þá út sem ábyrgir eru!“
Þú ert ekki sá fyrsti sem reynir að réttlæta þessi orð eftir á með því að ræðumaðurinn hafi átt við eitthvað annað en hann sagði eða að einungis hafi verið að nota líkingamál. Ég tel þrennt mæla gegn þeirri skýringu:
1) Í fyrsta lagi talar ræðumaðurinn mjög skýrt og fyrirvaralaust. Það er gefinn tiltekinn frestur til að verða við tiltekinni kröfu og ef ekki verður orðið við henni þá er fullyrt að ræðumaður og aðrir fari inn í ákveðnar byggingar og beri ákveðið fólk út úr þeim.
2) Í öðru lagi þá er ekkert í orðalaginu sem bendir til líkingamáls. Við hvað er verið að líka þessum boðuðu aðgerðum. Hver er hin raunverulega hótun ef hún er ekki sú sama og felst í hinu skýra orðalagi?
3) Í þriðja lagi þá útskýrði ræðumaður sjálfur ekki orð sín með vísan til líkingamáls í sjónvarpsviðtali í kvöld heldur kvaðst hún hafa verið að benda á einn möguleika sem væri í stöðunni.
Hvort sem við lítum á orð ræðumannsins sem dauð og ómerk eða ekki þá tel ég enga ástæðu til að lögregla búi sig ekki undir það sem getur gerst í skjóli múgæsings. Það þarf ekki endilega að vera raunhæft að bylting eða valdarán takist heldur er það afar óheppilegt ef reiðu fólki er t.d. leyft að brjótast inn á Alþingi og gera það sem því sýnist þar í kjölfar æsingafundar.
Hefði það t.d. verið glæsilegt ef lögreglan hefði ekki verið tilbúinn með viðbúnað til varnar lögreglustöðinni sl. laugardag og fólkið hefði fengið að brjóta sig þar inn og athafnað sig að vild, t.d. frelsað alla þá sem það taldi orka tvímælis að hafa í varðhaldi?
Oddgeir Einarsson, 28.11.2008 kl. 00:57
Ég er fyllilega sammála þeirri þriggja liða greiningu sem Oddgeirs á orðum laganemans.
Ég vill að sama skapi varpa fram eftirfarandi til þeirra sem telja að hér sé aðeins um líkingamál að ræða - hver telja menn að viðbrögðin væru ef háttsettir menn innan lögreglunnar eða dómsmálaráðherra hefðu látið falla ummæli í hina áttina - þar sem að mótmælendum væri tjáð að heldur betur að halda sig á mottunni næstkomandi helgi að öðru leyti yrðu þeir leitaðir uppi og handteknir.
Ég geri mér grein fyrir því að vegna stöðu sinnar væru öll ummæli þeirra séð í öðru ljósi en hjá umræddum laganema - en ég get ekki ímyndað mér að nokkur af þeim einstaklingum sem ræðir - líkingamál og sterk orð - væri jafn opnir fyrir því að túlka slík ummæli sem viðeigandi í hita leiksins. Eitt skal jafn yfir alla ganga.
Og til þeirra sem telja að framferði múgsins sem gerði aðsúg að höfðuðstöðvum lögreglunnar í Reykjavík sé afsakanlegt á einn eða annan máta - hvað þá að lögreglan hafi farið oforsi gagnvart múgnum - þá langar mig að benda á að þetta var að öllum líkindum eitt alvarlegasta brot gegn framkvæmdavaldinu í sögu þess. Enginn var handtekinn, enginn hefur verið kærður né svo ég viti til kallaður til skýrslutöku - ef þetta er ekki skilningur á ástandinu í þjóðfélaginu og opin hugsunarháttur til stuðnings tjáningarfrelsis einstaklingsins þá skora ég á hvern sem er að finna sambærileg dæmi í vestur evrópu.
Tómas Þ. Ómarsson (IP-tala skráð) 28.11.2008 kl. 10:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.