Jafnræði takk

Ég hlustaði á tvo talsmenn mótmælendanna í Fjármálaeftirlitinu í morgun hjá Arnþrúði Karlsdóttur á Útvarpi sögu beint í kjölfarið á mótmælunum. Þegar talið barst að eignaspjöllum á eigum ríkisins, þ.e. rúðubroti, þá orðaði annar þeirra það þannig að mótmælendurnir hefðu bara verið að banka og því miður hefði rúðan verið svo veikburða að hún gaf eftir.

Ekki veit ég hvers vegna mótmælandinn var að segja ósatt eins og myndirnar sanna. Varla var hann að fara með það í flimtingum að valda ríkissjóði jafnvel hundruða þúsunda króna tjóni, sem velt verður yfir á skattgreiðendur á sama tíma og verið að mótmæla því í hvaða skuldastöðu ríkissjóður sé kominn í.

Nú hefur ríkið þurft að standa í ýmsum kostnaði vegna skemmdarverka mótmælenda undanfarið. Allt frá þrifi á eggjaklessum á Alþingi til þess að þurf að kalla til fagmenn til að skipta um heilu rúðustæðurnar. Þetta er því miður ekki ókeypis. Þetta hefur flestallt náðst á myndband en hafa einhverjir verið yfirheyrðir vegna þessa?

Mér finnst kominn tími til að dustað verði rykið af jafnræðisreglunni og að allir menn fái sömu meðferð í réttarkerfinu fyrir eignaspjöll óháð stjórnmálaskoðunum. Annars hljóta allir að áskilja sér rétt á að brjóta nokkrar rúður refsilaust ef þeir eru t.d. á móti landbúnaðarstyrkjakerfinu, kvótakerfinu, of háum sköttum, of mikilli einkavæðingu, of mikilli ríkisvæðingu eða hvað það er sem hver og einn telur að hjá hinu opinbera.

 

 


mbl.is Mótmæli halda áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bára Halldórsdóttir

Nei auðvitað hefðu þau bara átt að fara heim og hætta þessu fyrst hurðinni var lokað.

Ekki er mikið mál að setja nýtt gler, tryggingar sjá um það eða sá sem framkvæmdi, málið snýst um rétt manna til að mótmæla í opinberri stofnun. Jú kostnaður en það kostar að koma málefnum á framfæri. Ég skal glöð borga með sköttum fyrir brotin gler ef breytingar komast fram. Ég vil hins vegar ekki borga fyrir störf vanhæfra manna sem hunsa óskir og aðstæður almennings og svara eins og rolur þegar spurt er hvers vegna menn sem voru með í hruninu séu ráðnir í ábyrgðarstöður við rannsókn á því.

Ég er ekki að réttlæta skemmdir á eigum hér, en finst það harla asnalegt að dæma málfluttning eftir eyðileggingu dauðs hlutar. Það er nokkuð ljóst að ekkert hefði gerst ef starfsmenn Fjármálaeftirlitsins hefðu bara virt rétt mótmælanda til að koma inn og mótmæla. Mótmælendur hefðu skellt sér inn truflað í nokkra stund eins og í Landsbankanum í gær og svo farið. Það að loka á fólk sem vill gagnrýna er eins og blaut tuska í andlitið á fólki sem er sært fyrir. Líkt og að skella á viðmælanda í síma.

Virðingarvert finnst mér líka að mótmælendur forðuðust líkamlegt ofbeldi með því að fara áður en lögregla kom. Óþarfi að skapa aðstæður sem valda meiðslum á fólki, en mín vegna má brjóta eins marga glugga og þarf til að koma málefninu til skila.

Í myndbandinu við fréttina er engin að neita sök, og þótt einhver hafi haft kaldhæðni við hönd er það líklega helst til að benda á fáránleika málsins.

Bára Halldórsdóttir, 18.12.2008 kl. 14:16

2 identicon

hæhæ,ég þekki þig ekki neitt :) en ég er sammála þér !

Elín Rún Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 18.12.2008 kl. 14:50

3 identicon

Það er auðvitað út í hött að halda því fram að rúðan hafi farið óvart og ekki skil ég hversvegna maðurinn var að segja það. Þetta var ósköp yfirveguð ákvörðun og skilaboðin skýr: það er ekkert í boði að loka á fólk sem vill losna við þessa menn.

Hvað kostnaðinn varðar þá get ég lofað þér því að kostnaðurinn við að hafa þetta fólk við völd áfram, mun alltaf verða hærri en kostnaðurinn við að koma því frá. 

Varðandi jafnræðisregluna þá er ég sammála því að það þyrfti að dusta rykið af henni. Við getum byrjað á því að framfylgja henni gagnvart Fjármálaeftirlitinu, sem hefur einmitt haft jafnræðisregluna að engu. (Nánar um það hér: http://www.althingi.is/altext/136/s/0151.html.

Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 18.12.2008 kl. 15:03

4 identicon

Bára ef þú ert svona áköf í að borga fyrir skemmdir þessi fólks þá legg ég til að þú borgir fyrir þær úr eigin vasa því ekki er ég tilbúinn að greiða fyrir þetta.

Þú gerir líka lítið úr eigum annarra og telur ekkert að því að brjóta "eins marga glugga og þar" ég spyr því bara hvar átt þú heima og má fólk koma og kasta grjóti í gluggana þína?

Vilhjálmur Andri Kjartansson (IP-tala skráð) 18.12.2008 kl. 15:05

5 Smámynd: Bára Halldórsdóttir

Vilhjálmur þú þyrftir ekki að brjóta rúðu til að komast að mér til að ræða við mig um það sem þú hefðir við mig vantalað. Því væri engin þörf á að brjóta rúðu, en ef þú vilt endilega brjóta rúðurnar hjá mér komdu þá bara, ég ræði það bara við lögreglu og tryggingarfélag eins og FME gera líklega.

Vandinn er aðallega sá að engin opinber stofnun virðist sinna þeirri gagnrýni sem þetta fólk er að sýna. Þá verðum við að borga gegnum aðrar leiðir fyrir þau störf. Mín skoðun þótt hún sé ekki sama og þín.

Og já, ef ég hefði afgang eftir hækkunina á húsnæðisláninu skyldi ég glöð borga rúðuna, og hika ekki við að halda því fram að mér tækist með samskotum að nurla saman fyrir henni hjá fólki sem er jafn ósátt og ég.

Bára Halldórsdóttir, 18.12.2008 kl. 15:16

6 identicon

Ohh... lendum við Vilhjálmur aftur á krossgötum... við fundum enga lausn þegar við vorum að gagnrína veggjarkrotin í Reykjavík, og nú verð ég að segja þér Vilhjálmur, að ég er aftur ósammála þér.

Ef "ríkustu" og "áhrifamestu" menn Íslands hefðu verið skynsamir þá hefði Ísland aldrey orðið "fátækasta land í heimi" eins og stendur á bol frá Dogma.

Ég hef engann áhuga á að borga skuldir auðmannanna, og ég efast um að þú viljir það heldur, enda eru þær skuldir sem sitja á hverjum og einum Íslendingi "aðeins" 2 milljónir (2.000.000) íslenskra króna, og þá er það bara lánið frá Alþjóða Gjaldeyris Sjóðnum, en ekki restin af láninu, ef við myndum taka saman allar skuldir auðmannanna og stjórnarinnar sem lenda á okkur eru það á bilinu 7 til 10 milljónir (7.000.000 til 10.000.000) íslenskra króna.

Þessar rúður sem brotnar voru í dag kosta hvern og einn landsmann á bilinu 0,5 til 2 krónur (ég þarf ekki að skrifa þær hér, enda svo fá núll). Ég veit ekki með þig, en ég er frekar tilbúin til að borga þessar örfáu einakrónur sem við venjulega höfum hent í sparibaukinn og týnt svo. Ég veit ekki hvernig þú lítur á þetta, en ég og fleyri sem ég veit um viljum gera eins mikið og í okkar valdi stendur til að gera okkar besta í að koma skuldinni á RÉTTA EIGENDUR!! Ef þú vild skal ég gjarna borga þér þessar krónur sem þú þarft að borga fyrir rúðurnar, ekki vandamálið.

mbk.

Bjarni Rúnar Ingvarsson

Bjarni Rúnar Ingvarsson (IP-tala skráð) 18.12.2008 kl. 15:43

7 identicon

algjörlega sammála ! , ef þetta hefði verið gert í einhverju öðru landi en íslandi hefði sá hinn sami verið skotinn af færi!, hvað er að fólki ég bara spyr?

jónatan (IP-tala skráð) 18.12.2008 kl. 17:31

8 identicon

'ef þetta hefði verið gert í einhverju öðru landi en íslandi hefði sá hinn sami verið skotinn af færi!'

Fylgist þú ekkert með fréttum Jónatan? Hefurðu aldrei heyrt um óeirðir í Frakklandi, Hollandi, Danmörku..?

Hitt er nokkuð ljóst að ef eitthvert annað Vestrænt ríki hefði gengið í gegnum annað eins efnahagshrun, þá hefðu fleiri en einn og fleiri en tveir tekið pokann sinn án þess þess að nokkur þyrfti að brjóta rúðu.

Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 18.12.2008 kl. 18:42

9 identicon

Bára þá er málið leyst þú greiðir þetta bara ásamt þínum félögum og lætur þetta ekki bitna á skattgreiðendum enda væri það mótsögn við málstað ykkar.

Bjarni ég man nú ekki eftir þessum blessuðu veggjakrotsumræðum okkar en afstaða mín hefur alltaf verið og verður alltaf að veggjakrot sé eignaspjöll þ.e. séu þau gerð í leyfisleysi og í óþökk eiganda þess sem krotað er á.

Ég hef engan áhuga á að borgar skuldir annarra og það sannar sig best núna að þessi pilsfatakapítalismi sem m.a. annars jafnaðarmenn á Íslandi hafa boðað í áraraðir er að falla um sjálfan sig. Það er bara vonandi að fólk fari að átta sig á því að sósíalisminn sem það kallar á væri auðvitað skref til enn frekari óréttlætis. Ég hefði viljað sjá þá sem eru að mótmæla benda á þá siðferðislegu brenglun að láta skattgreiðendur vera ábyrga fyrir viðskiptum einkaaðila um allan heim.

Bjarni mótmælendur eru að gagnrýna það að þurfa að greiða skuldir sem stofnast hafa vegna verka nokkurra auðmanna en á sama tíma brjóta þeir og bramla í hluti í samfélaginu og ætlast til þess að allir greiði fyrir þær kröfur sem stofnast vegna þeirra eigin athafna. Þú réttlætir ekki eitt óréttlæti með því að benda á annað.

Vilhjálmur Andri Kjartansson (IP-tala skráð) 18.12.2008 kl. 21:54

10 Smámynd: Bára Halldórsdóttir

Fínt Vilhjálmur, þú borgar þá bara reikningana sem ég vill ekki borga, þessa sem koma af undanskotunum sem og gagnlausu bjargráðunum sem ráðandi aðilar sem verið er að mótmæla eru að skapa núna. Þinn reikningur verður hærri en minn það er augljóst.

Mín skoðun er sú að mótmælakostnaður sé þrátt fyrir að vera ekki skapaður af ráðuneyti, eftirliti eða opinberri stofnun sjálfsagður kostnaður þess að búa í samfélagi. Mótmælendur skapa aðhald sem enginn annar er að gera og er þarft. Umbrot eru óumflýjanleg.

Bára Halldórsdóttir, 18.12.2008 kl. 22:13

11 identicon

Ég hef engan áhuga á að borga skuldir sem aðrir hafa safnað og ég tel það ekki siðferðislega réttlætanlegt að ríki um allan heim hafi neytt skattgreiðendur sína til að vera í ábyrgð fyrir fyrirtækjarekstur einstaklinga í ákveðnum geira. Ég hef heldur ekki áhuga á að borga fyrir skemmdarverkastarfsemi einstaklinga sem greinilega geta ekki hamið sig og telja það mikið réttlætismál að ganga um brjótandi og bramlandi. Ég endurtek það sem ég sagði hér fyrr: þú réttlætir ekki eitt óréttlæti með því að benda á annað.

Þeir sem ætluðu að græða hér mest og tóku mestu áhættuna eiga auðvitað að bera hana einir. Það hefði kannski verið fólki holt að hlust á okkur frjálshyggjumennina sem höfum alltaf sagt og segjum enn að einstaklingar eiga að bera ábyrgð á eigin ákvörðunum og gjörðum.

Vilhjálmur Andri Kjartansson (IP-tala skráð) 19.12.2008 kl. 00:35

12 identicon

Hvernig er það Oddgeir þarf ekki að fara að dusta rykið af 12. kafla almennra hegningalaga :)

Vilhjálmur Andri Kjartansson (IP-tala skráð) 19.12.2008 kl. 00:58

13 Smámynd: Oddgeir Einarsson

Sæll Vilhjálmur,

jú það er víða ryk sem þarf að dusta af, sérstaklega fyrir jólin.

Ég hef smá áhyggjur af þessum mótmælum. Undanfarið virðist sem lögreglunni þyki það hæfa að fallast á kröfur mótmælenda til þess að þeir láti af háttsemi sinni, t.d. um að lögreglan fari fyrst af vettvangi eða að mótmælendur fái að labba tiltekna leið af vettvangi. Þetta er auðvitað bara á mjög sakleysislegu stigi ennþá og auðvelt að álykta sem svo að lögreglan sé að haga sér skynsamlega.

En ef það er normið að mótmælendur telja sig alltaf verða að fá eitthvað til að bakka þá hef ég áhyggjur af því þegar/ef aðgerinar harðna á nýju ári og kröfurnar verða meiri. Þetta er bara gamla "ekki semja við hryðjuverkamenn" - prinsippið, þótt efnislega sé varla neitt sambærilegt við aðgerðir mótmælenda og hryðjuverkamanna nema að þær eru stundum ólögmætar að hluta til.

Oddgeir Einarsson, 20.12.2008 kl. 17:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband