16.3.2011 | 18:25
Hvernig er hinn lagalegi rökstuðningur fyrir kröfunni?
Ég hef miklar mætur á þessum lögmönnum sem undir þessa yfirlýsingu skrifa. Ég veit að þeir eru allir afar færir í að rökstyðja mál sitt.
Þeir færa m.a. fram þau rök að það kunni að reynast okkur dýrkeyptara að segja nei við samningum, jafnvel þótt gagnaðilar færu síðan í mál og töpuðu því, heldur en að segja já. Ég hef efasemdir um að þetta sé rétt en tel að aðrir en lögfræðingar séu betur til þess fallnir að leggja mat á þetta með kostnaðinn. Burtséð frá því þá taka áttmenningarnir ekki inn í reikninginn að sumir myndu telja það nokkurs virði fyrir Íslendinga nú og síðar að hafa staðfestingu dómstóls fyrir því að Bretar og Hollendingar hefðu reynt af öllum mætti að þrýsta á að smáríkið Ísland greiddi þeirra eigin útgjöld þótt enginn lagagrundvöllur væri fyrir því. Verðmætið sem fælist í þessu yrði vitanlega ekki mælanlegt í krónum eða evrum og skiptir því eflaust ekki máli fyrir alla.
En varðandi lögfræðina þá væri óskandi að áttmenningarnir eða aðrir færðu fram opinberlega lagaleg rök fyrir því að Ísland skuldi umkrafðar upphæðir. Þau rök koma ekki fram í yfirlýsingunni heldur er vísað í álit ákveðins aðila án þess að tilgreina rökin fyrir álitinu.
Fyrst áttmenningarnir virðast telja þá afstöðu, að vilja ekki samþykkja samninginn, vera leik að framtíð barnanna okkar, hvorki meira né minna, þá er ækilegt að einmitt þeir geri þjóðinni grein fyrir þeim lagarökum sem leiða kunna til þess að dómstóll telji íslenska ríkið ábyrgt fyrir kröfum Breta og Hollendinga. Ef þeir vilja að fólk sem ekki hefur séð slík rök, og telur því enga ástæðu til að taka á sig kröfuna, skipti um skoðun, þá ættu þeir að færa slík rök fram hið fyrsta.
![]() |
Lýsa stuðningi við Icesave |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)