Hvernig er hinn lagalegi rökstuðningur fyrir kröfunni?

Ég hef miklar mætur á þessum lögmönnum sem undir þessa yfirlýsingu skrifa. Ég veit að þeir eru allir afar færir í að rökstyðja mál sitt.

Þeir færa m.a. fram þau rök að það kunni að reynast okkur dýrkeyptara að segja nei við samningum, jafnvel þótt gagnaðilar færu síðan í mál og töpuðu því, heldur en að segja já. Ég hef efasemdir um að þetta sé rétt en tel að aðrir en lögfræðingar séu betur til þess fallnir að leggja mat á þetta með kostnaðinn. Burtséð frá því þá taka áttmenningarnir ekki inn í reikninginn að sumir myndu telja það nokkurs virði fyrir Íslendinga nú og síðar að hafa staðfestingu dómstóls fyrir því að Bretar og Hollendingar hefðu reynt af öllum mætti að þrýsta á að smáríkið Ísland greiddi þeirra eigin útgjöld þótt enginn lagagrundvöllur væri fyrir því. Verðmætið sem fælist í þessu yrði vitanlega ekki mælanlegt í krónum eða evrum og skiptir því eflaust ekki máli fyrir alla.

En varðandi lögfræðina þá væri óskandi að áttmenningarnir eða aðrir færðu fram opinberlega lagaleg rök fyrir því að Ísland skuldi umkrafðar upphæðir. Þau rök koma ekki fram í yfirlýsingunni heldur er vísað í álit ákveðins aðila án þess að tilgreina rökin fyrir álitinu.

Fyrst áttmenningarnir virðast telja þá afstöðu, að vilja ekki samþykkja samninginn, vera leik að framtíð barnanna okkar, hvorki meira né minna, þá er ækilegt að einmitt þeir geri þjóðinni grein fyrir þeim lagarökum sem leiða kunna til þess að dómstóll telji íslenska ríkið ábyrgt fyrir kröfum Breta og Hollendinga. Ef þeir vilja að fólk sem ekki hefur séð slík rök, og telur því enga ástæðu til að taka á sig kröfuna, skipti um skoðun, þá ættu þeir að færa slík rök fram hið fyrsta.

 

 


mbl.is Lýsa stuðningi við Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir

Sammála...

Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir, 16.3.2011 kl. 18:58

2 identicon

Það er einmitt þetta sem ég ekki skil hjá þessum lögmönnum og reyndar öllum sem hafa talað fyrir samþykkt ríkisábyrgðar á þessum kröfum.

Það er ljóst að það er andstætt EES reglugerðum já beinlínis má segja að það sé bannað að ríkistryggja innistæður en samt koma lögmenn og stjórnmálamenn fram og segja að okkur beri skylda til að leysa málið með samningum "eins og siðaðar þjóðir gera" en svo geta þeir aldrei boðið uppá lagarökstuðning og gefa jafnvel í skyn að það sé engin lagaleg skylda!!!(sbr Ragnar Hall í kastljósi). Hvers konar lögfræði er það að segja það siðlegt en ekki lagabundið að gangast við kröfum annara, þó það geti kostað þig aleiguna.

Sveinn Úlfarsson (IP-tala skráð) 16.3.2011 kl. 19:30

3 Smámynd: Ólafur Björn Ólafsson

Mér dettur einna helst í hug að spyrja hvað álit þeirra og rökstuðningur hafi kostað??? Skylst að það greiði enginn maður með viti atkvæði með þessum ó-lögum...

Kaldi

Ólafur Björn Ólafsson, 16.3.2011 kl. 19:31

4 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Getur lesið það hérna:   http://www.eftasurv.int/media/internal-market/LFN-Icesave.pdf

Ástæðan er að ríki bera ábyrgð á því að aðilar að máli fái lágmarksbætur ef á reynir og í annan stað er í umræddu tilfelli Jafnræðisregla EES mölbrotin gróflega.  Ekki sérlega flókið neitt.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 16.3.2011 kl. 23:21

5 identicon

Er það ekki makalaust að enginn þessara lögvísu manna lyftir litlaputta til bjargar þjóð sinni, frá klóm þjóðníðinganna og bankaræningjanna á þeirri ögur stundu þegar þjóðin þarfnaðist þeirra mest við að klófesta þá og endurheimta þýfið.

Heldur rís nú upp skari þeirra, og vill að þjóðin segi sig frá heiðarlegum réttarhöldum til að fá úr skorið um sök sína og ófæddra barna sinna.

Svei þessum lítilmennum.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 17.3.2011 kl. 01:39

6 identicon

Hvernig væri að standa við erlenda samninga´, EES,  og greiða Icesave?  

Hvort að erlendir samningar voru rétt innleiddir á Íslandi skiptir engu máli fyrir það ríki sem við erum með samninga við.  Það vill fá sinn rétt samkvæmt þeim samningum sem um var við okkur samið.

Það má ekki láta reiðina bitna á saklausum innistæðueigendum hverrar þjóðar þeir eru.

Hvernig væri svo að láta til sín taka og eyða púðri í að ná í sökudólgana?

Það er betra en að halda áfram að hvelja fórnarlömbin. 

Stefán Júlíusson (IP-tala skráð) 17.3.2011 kl. 07:05

7 Smámynd: Oddgeir Einarsson

Ómar Bjarki: linkurinn þinn er einmitt á álitið sem ég vísaði til í færslunni. Það álit er lögfræðilega rangt. Mig langar að benda á ágæta grein Lárusar L. Blöndal hæstaréttarlögmanns og Stefáns Más Stefánssonar lagaprófessors (http://www.advice.is/?p=370) varðandi nákvæmlega þetta álit en lokaorð greinarinnar eru eftirfarandi:

Samantekið má færa rök að því að ESA hafi í þessu máli fyrst og fremst leitað niðurstöðu sem stuðlaði að ró um starfsemi banka í Evrópu. Tilvísanir til lagagreina standast ekki skoðun. Að hluta til er vitnað til aðfaraorða sem ekki skipta máli og sama gildir um flesta dóma dómstóls ESB sem vísað er til. Hins vegar fer lítið fyrir sjónarmiðum sem styrkja aðra niðurstöðu eins og rækilega hefur verið bent á.

Í upphafi greinarinnar var sagt að stofnuninni bæri að taka hlutlægar ákvarðanir á lögfræðilegum grunni án tillits til hagsmuna aðila. Draga má í efa að það hafi verið gert í þessu máli. Telji menn að endurskoða þurfi tryggingarkerfi innistæðueigenda innan ESB þá er vissulega hægt að taka undir það. En gallar gamla kerfisins verða tæplega gjaldfærðir á Ísland. Svo virðist sem engin þjóð verði fyrir fjárhagstjóni vegna þessarar túlkunar ESA önnur en Ísland. Er það ástæðan fyrir því að okkur skortir bandamenn?

Oddgeir Einarsson, 17.3.2011 kl. 08:56

8 identicon

Rökstuðningurinn kemur skýrt fram í áminningarbréfi ESA frá því í maí í fyrra (http://www.eftasurv.int/press--publications/press-releases/internal-market/nr/1254) og er reyndar skýrður mjög vel af Margréti Einarsdóttur forstöðumanni Evrópuréttarstofnunar HR í Fréttablaðinu í dag, 17. mars (bls. 26). Nokkuð ljóst er að ESA mun úrskurða að Íslendingum beri í það minnsta að greiða innistæðutryggingar og jafnvel allar innistæðurnar og mun meiri líkur en minni eru á að EFTA dómstóllinn dæmi eins. Ekkert er öruggt í þessum heimi, og þetta auðvitað ekki heldur, en líkurnar benda allar í eina átt. Oft hefur komið fram að EFTA-dómstólinn er ekki skaðabótadómstóll, heldur dæmir hann um það hvort þeir sem málið er höfðað gegn teljast hafa brotið EES-samning eða ekki. Ef dómur hans fellur Íslendingum í óhag höfum við varla nema tvo kosti, annaðhvort greiða það sem upp er sett (og þá án allra samninga við Hollendinga og Breta), hvort sem það gerist eftir málaferli á Íslandi eða ekki, eða okkur verður hent út úr EES. Þá munum allir okkar samningar við ESB falla úr gildi. Þetta ber að hafa í huga þegar málið er íhugað.

 Og eins og margoft hefur komið fram. Þetta mál snýst ekki um það hvort ríkið taki á sig skuldir einkabanka eða ekki. Það hefur ríkið þegar gert með neyðarlögunum, og Icesave -- hvernig sem það er reiknað -- er hjóm eitt í samanburði við þær skuldbindingar. Málið snýst aftur á móti um, svo vitnað sé í fyrrverandi seðlabankastjóra, hvort íslendingar komist upp með að borga ekki erlendar skuldir óreiðumanna. Samkvæmt EES-samningnum er slík mismunun óleyfileg. Ef við hefðum sem sagt í raun látið bankana rúlla eins og hver önnur einkafyrirtæki í október 2008, þá hefði ekki verið nein ICESAVE-deila. En hvort það hefði verið nokkuð Ísland er annað mál ...

Pétur (IP-tala skráð) 17.3.2011 kl. 08:59

9 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

,,Það álit er lögfræðilega rangt."

Nuuú er það rangt lögfræðilega. 

Ok. þá er þetta bara í lagi.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 17.3.2011 kl. 09:54

10 identicon

Nokkuð sannfærandi að fella Icesave fyrst lögfræðingiaelíta mælir ekki með slíku.

doctore (IP-tala skráð) 17.3.2011 kl. 14:21

11 Smámynd: Elle_

Ómar og Stefán.  Hvað hafið þið lagt inn fyrir kúguninni allan þann tíma sem þið hafið barist fyrir að koma henni yfir okkur???  Og já, lagarök lögmannanna vantar, enda eru þeir að styðja kúgun og eru þannig meðsekir og eiga engar mætur skilið, heldur harða gagnrýni annarra lögmanna.    

Elle_, 18.3.2011 kl. 15:27

12 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Ef um væri að ræða samning væri hægt að taka afstöðu til þess um hvaða upphæðir væri um að ræða, hvað þarf að borga, hvenær og ekki síst í hvaða mynt það væri, þá er hægt að mynda sér skoðun, vega og meta hlutinn og taka upplýsta ákvörðun.

Ég vil meina að þetta sé ekki samningur vegna þeirrar einföldu ástæðu að í plagginu er ekkert að finna sem segir svart á hvítu hvað þarf að borga, hvernig og hvenær.

Á meðan svo er, er einfaldlega ekki hægt að samþykkja það plagg sem lagt var fram í þriðja skiptið. Enda getur það varla talist yfir höfuð góðir viðskiptahættir að skrifa undir eitthvað, að hálfu skuldarans, sem hann veit ekki hvaða afleiðingar hefur.

Sindri Karl Sigurðsson, 19.3.2011 kl. 00:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband