Ég mótmæli

Þar sem ég er haldinn þeim kverúlantsskap að tortryggja allar hömlur sem ríkið leggur á fólkið þá hnaut ég um þann hluta fréttarinnar þar sem fram kemur að það þurfi að fá leyfi frá lögreglu til að mótmæla einhverju í landinu (án þess að ég hafi kynnt mér þessa lagagrein).

Mér finnst að allir eigi að fá að segja sína skoðun takmarka- og skilyrðislaust, svo lengi sem viðkomandi brjóti ekki á rétti neins. 

Hvað ef um væri að ræða rólegt fólk sem engar aðrar reglur bryti en að gleyma að tilkynna lögreglunni að það ætlaði að mótmæla, tja, segjum hugsanlegu lögregluofbeldi?

Tek fram að Saving Iceland gengið er ekki dæmi um friðsamt fólk þar ég sá það m.a. halda til í Kringlunni gegn vilja þeirra sem Kringluna reka. Það er óréttmæt valdbeiting, gott fólk, alveg eins og ef ég kæmi til ykkar og neitaði að yfirgefa íbúðina eftir að mér væri sagt að fara.

Já, þetta er þunn færsla ég veit það...


mbl.is Almannahagsmunir réðu aðgerðum lögreglu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er það rétt að öll útimótmæli séu leyfiskyld? 

Ég er ekki löglærður og kann væntanlega ekki réttu aðferðirnar við að leita en mér finnst bölvanlega erfitt að tína saman öll lög, reglugerðir og lögreglusamþykktir + framkvæmd sem gilda um mótmæli.

Mér finnst það svo sem alveg eðlilegt að það sé ekki hægt að búa sér til skilti hvenær sem manni dettur í hug og ganga síðan löturhægt eftir miðri miklubrautinni. Í þessu tilviki var mótmælendunum boðið að fara aðra leið.

Í öllu falli gefur þessi uppákoma tilefni til alskyns heilabrota.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 16.7.2007 kl. 02:26

2 Smámynd: Finnur Ólafsson Thorlacius

Nei þú þarft ekki að fá leyfi til að mótmæla einhverju.  Ég efast um að Helgi Hós fara niður á stöð á hverjum degi til að fá leyfi.

En það sem fór fram þarna þurfti að fá leyfi fyrir, þ.e. hópur fólks að arka niður akbrautir, skiptir ekki máli hvort um mótmæli er að ræða eða aðra samkuntu.  Þetta er útskýrt ágætlega af lögreglunni í fréttinni, ekki þykjast vera svona vitlaus, ég vona að þú sért það ekki..

Finnur Ólafsson Thorlacius, 16.7.2007 kl. 03:13

3 Smámynd: Oddgeir Einarsson

Finnur:

Eins og ég sagði þá var talað um það í fréttinni að leyfi þyrfti fyrir mótmælunum og ég tók sérstaklega fram að ég væri ekki búinn að grafa upp ákvæðið sem þetta byggðist á.

Ég hef nú fundið það, sbr. 11. gr. lögreglusamþykktar fyrir Reykjavíkurborg, sem er svohljóðandi:

„Tilkynna skal lögreglustjóra um fyrirhugaðar hópgöngur og útifundi í því skyni, að hann geti gert viðeigandi ráðstafanir varðandi stjórnun umferðar.“

Ég fæ ekki annað séð en að friðsömu fólki sem hyggst funda úti án þess að trufla aðra sé skylt samkvæmt þessu að tilkynna það fyrst lögreglunni. Það má hins vegar vel vera að þessu sé ekki fylgt eftir og veit ég ekkert um það.

Varðandi röksemd þína um að Helgi Hósearson þyrfti ekki leyfi þá þarf fleiri en einn til þess að mynda hóp eða fund eins og ákvæðið gerir ráð fyrir og því á leyfisskyldan ekki við um hann einan.

Oddgeir Einarsson, 16.7.2007 kl. 08:49

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Þetta er einfalt: Borgin/ríkið á göturnar og getur því ákveðið hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til að fá að ganga um þær og safnast saman á þeim, að því gefnu að ekki takmarkanirnar séu ekki það miklar að fólk telji að um stjórnarskrárbrot sé að ræða (þar sem ríkið þvingar sig til að leyfa hópfundi á eigum sínum að ákveðnum skilyrðum uppfylltum).

Geir Ágústsson, 16.7.2007 kl. 13:18

5 Smámynd: Oddgeir Einarsson

Geir:

Þegar einstaklingar kaupa landsvæði þá gera þeir það á eigin ábyrgð. Ef Þegar ríkið kaupir eða byggir eignir þá er það gert á ábyrgð skattgreiðenda. Ef fjárfestingin mistekst þá 

 Mér finnst skipta máli hvernig eignarréttur að svæði komst í hendurnar á ríkinu. Sovétríkin voru t.d. öll í höndum ríkisins í skjóli ofbeldis sem Kommúnistaflokkurinn beitti. Var þá heimilt að banna hverskonar tjáningu á eignum ríkisins = landinu öllu?

Oddgeir Einarsson, 16.7.2007 kl. 14:56

6 Smámynd: Oddgeir Einarsson

Ég ýtti óvart á "send" þegar ég var að skrifa síðustu færslu til Geirs hér að ofan go fór hún því út ókláruð og ekki hugsuð til enda!

Ég kann ekki að breyta þessu en finnst þetta svo fyndið að ég ætla bara að láta þetta nægja um þetta áhugaverða mál. Eins gott að ég var ekki búinn að segja enn meiri vitleysu áður en ég rakst á "send" takkann :)

Oddgeir Einarsson, 16.7.2007 kl. 15:00

7 Smámynd: Geir Ágústsson

Ég er ekki sammála því að ríkiseign = almenningseign, jafnvel þótt ríkið þvingi fólk til að halda sér og eigum sínum uppi. Ríkiseign er nákvæmlega það - eign ríkisins - og ef menn ætla sér að þramma um götur og gangstíga ríkisins þá verða þeir að gjöra svo vel og kyngja því sem ríkið fyrirskipar (eða óhlýðnast þannig að ekki komist upp um það).

Ég sé engan lykilmun á því að ríkið þjóðnýti land einhvers eða skattleggi/ræni manninn fyrst og borgi honum svo "skaðabætur" fyrir að flæma hann af landi sínu. Engin ríkiseign er réttlætanlegri en önnur svo það "hvernig" ríkið eignaðist land er algjört aukaatriði í mínum huga. Þó hugnast mér betur þegar ríkið rænir án þess að beita líkamlegu ofbeldi sem fyrstu aðgerð og notist frekar við gylliboð og loks hótanir.

Eina leiðin til að tryggja sér réttinn til að mótmæla og standa með skilti er að eignast jörð og standa á henni.

Geir Ágústsson, 16.7.2007 kl. 15:57

8 identicon

Hver á að skilgreina/ráða hvað sé réttur hvers og eins?

sigga (IP-tala skráð) 16.7.2007 kl. 22:44

9 Smámynd: Oddgeir Einarsson

Sammála því að það sé eina örugga leiðin að eiga landið sem maður reykir, mótmælir, klæmist, reykir hass eða stundar vændi á, en það breytir því ekki að ég telji ríkið ekki hafa rétt (siðferðislegan, ekki lagalegan) til að ákveða hvaða hátternisreglur sem er á landssvæðum sem tilheyra því lagalega séð.

Oddgeir Einarsson, 17.7.2007 kl. 11:17

10 Smámynd: Oddgeir Einarsson

Enn og aftur verð ég að leiðrétta ónákvæmni mína: Eignarréttur að landi kemur manni að sjálfsögðu ekki undan almennum reglum ríkisins um háttsemi sem skaðar ekki aðra, en það ÆTTI að vera þannig.

Oddgeir Einarsson, 17.7.2007 kl. 11:20

11 Smámynd: Geir Ágústsson

Röð óneitanlegra staðhæfinga ákvarða rétt þinn.

Míníútgáfa:

Þú ert eini eigandi líkama þíns (þar á meðal hugsana og tilfinninga innan hans). Ég get ekki rökstutt að ég eigi þig að hluta eða heilu lagi án þess að lenda í mótsögn við sjálfan mig. Ég get ekki sagt þér fyrir verkum nema brjóta á sjálfseignarrétti þínum og get ekki varið þann verknað nema opna á að aðrir segi manni sjálfum fyrir verkum. Enn sem áður er ekki hægt að kalla annan mann eign sína að hluta eða í heild án þess að lenda í mótsögn við sjálfan sig. Getur þrælahaldarinn mótmælt því að verða sjálfur gerður að þræl annars nema koma upp um tvöfeldni sína?

Land og ásnertanlegir hlutir hljóta að verða að eign þess fyrsta sem tekur þau úr náttúrulegu ástandi með vinnu sinni. Ef ekki, hver þá? Ekki er unnt að taka af honum eign hans (áður ónýtt gæði) nema lenda í rökræðum sem koma mér í mótsögn við sjálfan mig (getur ræningi mótmælt því að vera rændur?).

Einstaklingar geta því bara komist yfir eigur annarra með frjálsum og óþvinguðum skiptum, viðskiptum eða samskiptum.

Niðurstaða: Þú átt rétt á að ráða yfir eigin líkama og eignum, virða sjálfseignarrétt annarra og láta eigur annarra í friði nema með frjálsum viðskiptum.

Mannréttindi eru bara eignaréttindi.

Geir Ágústsson, 17.7.2007 kl. 12:22

12 Smámynd: Oddgeir Einarsson

Mér finnst bara erfitt að skilja eftirfarandi röksemdafærlsu þína Geir (hafi ég meðtekið hana rétt) :

1. Ekki er réttlætanlegt að ríkið eigi neina eign.

2. Ríkið má setja hvaða hátternisreglur sem það vill á eignun sínum og fólki ber að hlýða þeim.

Ef ég geri einhvern þann gerning að ég verði löglegur eigandi íbúðar nágrenna míns, t.d. með því að neyða hann með valdi til að gefa út afsal, er ég þá í fullum rétti (siðferðislegum) að banna honum að vera í íbúðinni, sem nú tilheyrir mér á pappírunum?

Ég er á því að siðferðislegi rétturinn til að setja reglur um háttsemi á eigum byggist ekki aðeins á því að vera formlega skráður eigandi heldur að sé eignarréttindin tilkomin á réttmætan hátt. Þannig má segja að ég samþykki ekki að ríkið krefist þess að ég biðji um leyfi til að hitta fólk á stað sem reistur var fyrir skattfé sem tekið var ófrjálsri hendi af mér, né að ég megi banna nágranna mínum að vera í íbúð sem ég hef eignast gegn vilja hans.

Oddgeir Einarsson, 17.7.2007 kl. 15:33

13 Smámynd: Geir Ágústsson

1. Rétt skilið.

2. Skilji fólk ekki punkt 1, og samþykki að ríkið geti verið eigandi lands, þá ber viðkomandi að lúta vilja ríkisins eins og hvers annars íbúðareiganda hvers íbúð er gengið inn í.

Ég er samt svo ósamkvæmur sjálfum mér að ég virði ekki punkt 1, en þar sem vanvirðing á honum þýðir fangelsisvist, þá haga mér eins og sá sam samþykkir punkt 2. 

Geir Ágústsson, 17.7.2007 kl. 23:01

14 Smámynd: Oddgeir Einarsson

Ég skil þig Geir og held að ég sé alveg sammála þér efnislega. Bara spurning um blæbrigðamun í hugtakanotkun sem veldur því að við tölum ekki sem einn maður. Til að hámarka lífsgæði sín verður fólk stundum að lúta vilja þess sem beitir valdi án þess að samþykkja réttinn til valdbeitingarinnar. Þetta á við um fórnarlömb nauðgana, vopnaðra rána sem og almenna skattborgara!

Oddgeir Einarsson, 17.7.2007 kl. 23:11

15 Smámynd: Geir Ágústsson

Gott ef Vefþjóðviljamenn eru ekki að lesa bloggið þitt og athugasemdir á því!

Úr pistli þeirra í dag:

"En eru viðskipti Bóksölu Andríkis við ríkispóstinn um leið yfirlýsing um að Andríki styðji rekstur ríkisins á slíkri þjónustu? Nei, ekki frekar en akstur eftir þjóðvegi 1 er yfirlýsing um að menn styðji það að ríkið stundi vegagerð. Hlustun á Ríkisútvarpið er heldur ekki yfirlýsing um að menn styðji rekstur Ríkisútvarps, jafnvel þótt menn hlusti stundum á Spegilinn. Lambakjötsát er varla sérstök stuðningsyfirlýsing við milljarða króna framlag úr ríkissjóði á hverju ári til senda nokkur hundruð þúsund krullhærða grasbíta út um móa og mela.

En hvað með þá sem starfa hjá ríkinu, til dæmis hjá tollinum eða víneftirlitinu, eru þeir ekki þar með búnir að afsala sér öllum rétti til að vera á móti tollum og óþörfu eftirliti? Varð Adam Smith til að mynda ómarktækur þegar hann varð tollstjóri í Skotlandi? Nei, auðvitað er ekki hægt að neyða menn til að búa við ákveðið skipulag sem þeir eru andvígir að verulegu leyti og gera um leið þá kröfu til þeirra að þeir neiti sér um að taka þátt í stórum hluta þjóðfélagsins."

Geir Ágústsson, 18.7.2007 kl. 12:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband