25.2.2011 | 09:20
Hvorki völd né umboð
Samkvæmt núgildandi stjórnarskrá verður henni ekki breytt nema Alþingi samþykki breytingarnar bæði fyrir og eftir alþingiskosningar. Stjórnlagaþingið hefði því ekki getað fengið völd til neins nema koma með tillögur. Valdið er hjá Alþingi og hverjum og einum alþingismanni er samkvæmt stjórnarskránni skylt að taka afstöðu til mála á grundvelli eigin sannfæringar. Þar af leiðandi hefði hverjum alþingismanni verið beinlínis skylt að greiða atkvæði gegn tillögum stjórnlagaþings ef þær væru andstæðar sannfæringu hans.
Jafnvel þótt kosningin til stjórnlagaþings, þar sem tilteknir 25 einstaklingar hlutu kosningu, hefði verið lögmæt, væri það ekki aðeins algerlega valdalaust heldur einnig með afar lítið lýðræðislegt umboð. Einungis um þriðjundur kjósenda (36%) sá ástæðu til að mæta á kjörstað en um tvöfalt fleiri ákváðu að taka ekki þátt.
Þátttaka í síðustu alþingiskosningum var aftur á móti um 85%. Því er ljóst að lýðræðislegt umboð Alþingis er langtum meira en umboð stjórnlagaþingsins hefði verið.
Í þessu ljósi skiptir engu máli hvort nefndin sem kemur með óbindandi tillögur var frá stjórnlagaþingi eða handvalinni nefnd 25 manna. Hvorki vald þeirra né umboð frá kjósendum eru til staðar ólíkt því sem gildir um alþingismenn.
![]() |
Ekki kosið til stjórnlagaþings |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.2.2011 | 13:34
Andstaðan við réttarríkið
Þann 29. janúar 2009 tók Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra þá ólögmætu ákvörðun að synja hluta aðalskipulags Flóahrepps sem varðaði Urriðafossvirkjun. Þetta er samdóma álit allra þeirra sex dómara sem fjallað hafa um málið, eins héraðsdómara og fimm hæstaréttardómara.
Þegar fjallað var um hina ólögmætu ákvörðun ráðherra á Alþingi steig Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, fram og kvaðst fagna því að loksins væri kominn umhverfisráðherra sem stæði vörð um náttúruna.
Þessi nálgun fjármálaráðherra er röng. Það er löggjafinn, Alþingi, sem vegur og metur hagsmuni og setur að því hagsmunamati loknu lög. Það er lagaramminn sem ræður því hvort og þá hvernig hagsmunir á borð við náttúruvernd eru verndaðir með lögum. Þegar tiltekið mál er til úrlausnar hjá ráðherra á hann að framkvæma lögin eins og þau eru en ekki eins og ráðherra vildi að þau væru.
Ef eitthvað væri að marka má orð ráðherra þá er það hlutverk hvers ráðherra að berjast fyrir tilteknum hagsmunum sem heyra undir viðkomandi ráðuneyti. Jafnframt virðist fjármálaráðherra telja að ef slík barátta felur í sér að taka þurfi ólögmæta ákvörðun þá eigi ráðherrann skilið klapp á bakið.
Það er eitt af grundvallareinkennum réttarríkisins að framkvæmdavaldið fari að lögum fremur en pólitískum viðhorfum. Ráðherrar eru æðstu handhafar framkvæmdavaldsins og ber að taka ákvarðanir í samræmi við lög en ekki eigin geðþótta.
Það er alvarlegt mál þegar fjármálaráðherra og leiðtogi annars tveggja ríkisstjórnarflokka afhjúpar með þessum hætti viðhorf sitt til þeirra starfa sem ráðherrar gegna og hrósar samstarfsráðherra sínum fyrir ákvörðun sem er í andstöðu við þau lög sem Alþingi hefur samþykkt.
![]() |
Boðar stjórnendur Flóahrepps til fundar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.2.2011 | 10:00
Endanleg?
Ég hallast að niðurstöðu sem er gagngstæð þeirri sem Sigurður Líndal kemst að.
1. Hæstiréttur starfaði sem fjölskipað stjórnvald en ekki sem dómstóll þegar hann tók ákvörðun um að fella kosningarnar úr gildi.
2. Ákvörðun Hæstaréttar var stjórnvaldsákvörðun en ekki dómur.
3. Ef til greina kemur að láta stjórnvaldsákvörðun vera endanlega og ekki sæta endurskoðun dómstóla þá tel ég að það þurfi a.m.k. að koma fram í lögum að svo sé. Svo var ekki í tilviki laga um stjórnlagaþing.
4. Jafnvel þó svo það segði í lögum að ákvörðun Hæstaréttar sætti ekki endurskoðun þá segir í 60. gr. stjórnarskrárinnar: Dómendur skera úr öllum ágreiningi um embættistakmörk yfirvalda". Að mínu mati felst í þessu að allar stjórnvaldsákvarðandir stjórnvalda sæti endurskoðun dómstóla hvað sem lög segja um það.
Ég er alveg sammála Sigurði Líndal um að það sé undarlegt að bera ákvarðanir Hæstaréttar undir dómstóla. En það helgast af því að ég tel það fyrirkomulag að láta Hæstarétt Íslands taka stjórnvaldsákvarðanir eða sinna örðum stjórnsýsluverkefnum vera rangt. Hæstiréttur hefur nóg að gera við að dæma án þess að hann sé beðinn um að taka að sér verkefni stjórnsýslunnar í ofanálag.
![]() |
Ákvörðun Hæstaréttar endanleg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)