Færsluflokkur: Bloggar

Mafían og fyrirliðinn

Vonandi kemur mafían því til leiðar að Hermann Hreiðarsson verði ekki bara fyrirliði Íslands heldur fyrir liði Dana líka.
mbl.is „Mafían" mætir á leikinn á Parken
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fréttamat

Ef þetta reynist satt þá finnst mér þessi frétt miklu merkilegri en allt það dægurþras og leiðindi sem gjarnan ratar fremst í fréttum. Pólitík og hörmungar (fyrra hugtakið er gjarnan undirhugtak þess síðara) eru það sem fréttir snúast mest um.

Man ég hugsaði svipað fyrir um 10 árum þegar vísindamenn töldu sig hafa fundið ummerki eftir líf á mars.

 


mbl.is Kona með hálfan heila lifir eðlilegu lífi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óvæntur stuðningsmaður frelsisins

„Ég vil ekki skerða frelsi út frá undantekningum, hvorki ferðafrelsi né annað“

Ofangreind ummæli lét viðmælandi Egils Helgasonar falla í Silfri hans í dag. Sem stuðningsmanni frelsis er ég hjartanlega sammála ummælunum. Flestir myndu ætla að svona mæltu aðeins „öfgafrjálshyggjupostular“ eða einhverjir þaðan af verri.

Í löggjöf okkar er að finna ótal skerðingar á frelsi allra vegna undantekningartilvika. Sem dæmi um þetta er takmörkun á aðgengi að áfengi (viðskiptafrelsi). Langflestir myndu ekki fara á fyllerístúr ef bjór kæmi í matvöruverslanir. Í undantekningartilfellum gæti einhver virkjað í sér alkann og dottið í það á gangstéttinni fyrir framan Bónus.

Löggjafinn hefur hingað til stutt að frelsi allra til að selja og kaupa áfengi hver sem er sé skert vegna undantekningartilvika sem upp kynnu að koma. Vinstri grænir eru eini flokkurinn á Alþingi hvers allir þingmenn styðja áframhaldandi frelsisskerðingu með hliðsjón af þeim undantekningartilvikum sem upp kynnu að koma.

Í því ljósi er það afar athyglisvert að það skuli einmitt hafa verið þingmaður Vinstri grænna, Atli Gíslason sem kvaðst í Silfri Egils í dag ekki vilja skerða neitt frelsi útfrá undantekningum. 

 


Af rónunum í Austurstræti

Vegna vinnu minnar geng ég daglega um Austurstræti. Stundum koma til mín rónar og biðja um pening. Sjaldnast er ég með klink á mér og verð því að tilkynna rónanum að því miður noti ég nær eingöngu kort. Ég bíð eftir þeim yfirvofandi degi þegar rónarnir verða komnir með posa. Mikið held ég að muni hlakka í rónanum þá þegar ég tilkynni honum að ég sé bara með kort.

Þrátt fyrir að ég hafi talið það herbragð snilldarlegt hjá Vilhjálmi borgarstjóra og ÁTVR, að fjarlægja litla kælinn í vínbúðinni í Austurstræti, og talið einsýnt að við það myndu rónarnir snúa lífi sínu til betri vegar (því hver nennir að drekka volgan bjór daginn út og inn), þá hafa þau undur og stórmerki gerst að rónarnir hafa haldið áfram að drekka áfengi. Sumir hafa reyndar snúið sér að kardimommudropum þar sem kjörhitastig til neyslu á þeim hærra en bjórs. Eftir stendur þó að margir rónar drekka enn bjór þótt ókældur sé.

Ég er samt ekki á því að ÁTVR eigi að gefast upp á viðleitni sinni til að fá rónana til að hætta að drekka. Mín tillaga er sú að fjárfest verði í hitaskápum, svona eins og er að finna á pítsustöðum, og öllum bjór verði komið þar fyrir. Hann væri þá kannski um 20°C heitur og með öllu ódrekkandi, jafnvel fyrir róna. Það myndi líka efla verslun með kardímommudropa. 


Boð og bönn

Þrátt fyrir að áfengisfrumvarpið verði að öllum líkindum ekki að lögum þá sé ég einn ljósan punt í málinu. Stuðningsmenn frumvarpsins koma úr öllum flokkum nema VG. Sumir þessara þingmanna telja það í góðu lagi að setja skorður á frelsi einstaklinga þegar það hentar þeim en furða sig síðan á því að frelsið sé ekki virt þegar það sjálft berst fyrir því. Þetta gæti kennt þeim þá lexíu að það er ekki sjálfsagt að takmarka frelsi annarra og búast síðan við stuðningi frá þeim um aukið frelsi.

Best væri auðvitað að hverjum og einum væri heimilt að setja hvaða boð og bönn sem viðkomandi vill en þó aðeins yfir sjálfum sér ef ekki er um að ræða hegðun sem skaðar aðra en viðkomandi beint.


Gagnkvæmt samkomulag

Að lesa upp sjónvarpsdagskrá er mikið ábyrgðarhlutverk og ekki sama hver gegnir því.

Tvær þulur hafa látið af störfum og í fréttinni segir: „Það var gagnkvæmt samkomulag við Guðmund [F. Benediktsson] að hann hætti og Guðrún [Kristín Erlingsdóttir] ákvað að hætta."

Samkvæmt mínum heimildum er Þetta niðurstaðan af löngum fundum þar sem farið hefur verið yfir árangur Guðmundar í starfi. Niðurstaðan var sú að tími væri kominn fyrir nýtt blóð til að hressa upp á sjónvarpsdagskránna, sem hefur tekið að dala undir stjórn Guðmundar.


mbl.is Flugfreyja flýgur í þulustarfið á RÚV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það sem mér finnst athyglisvert...

...við þessa „gyðjufrétt“ er að þarna er e.t.v. komin skýringin á því hvernig goðsögnin um upphaflegu gyðjuna varð til.


mbl.is Aðgerð á „gyðjubarninu" gekk vel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jafnréttið

Talsmenn jafnréttisiðnaðarins tefla gjarnan fram hausatalningu og prósentutölum þegar þeir rökstyðja þá skoðun sína að konum sé mismunað.

Í athugasemdum við frumvarp að jafnréttislögum sem nú liggur fyrir Alþingi er getið um 25 nafngreinda einstaklinga sem komu að frumvarpinu, 18 konur og 7 karlar eða 28% og 72%.


Hugsað lengra

Í Morgunblaðinu 30. október sl. er að finna grein eftir Kristján G Arngrímsson sem ber titilinn „Hugsað stutt“ og ber greinin nafn með rentu að mínu mati.

Greinin er gagnrýni á málflutning þeirra sem greinarhöfundur kallar „hægripostula“ varðandi það hvort leyfa eigi fleiri aðilum en ríkinu að selja áfengi í verslunum. 

Í greininni teflir greinarhöfundur fram þeirri röksemd að afnám á einkasölu auki skattheimtu þar sem kostnaður heilbrigðiskerfisins aukist. „Hægripostularnir“ séu því að kalla eftir aukinni skattheimtu með því að vilja bjór í fleiri búðir en þær sem ríkið rekur.

Það er ein af forsendum greinarhöfundar að ríkið eigi að greiða allan þann aukna kostnað sem hann fullyrðir að „heilbrigðiskerfið“verði fyrir við afnám einkasölu ríkisins. Semsagt að þeir sem drekki ekki eigi að niðurgreiða skaðann sem drykkjumenn valda sjálfum sér. Samt sem áður segir greinarhöfundur sjálfur á öðrum stað í greininni: „Maður á sjálfur að sjá fótum sínum forráð, og geti maður það ekki á maður ekki við annan að sakast en sjálfan sig.“

Burtséð hvort ég sé hér að misskilja greinarhöfund eða ekki hlýtur það a.m.k. að vera umdeilanlegt hvort að maður geti alltaf átt tilkall til þess að nágrannarnir (skattgreiðendurnir) borgi fyrir heimskuleg athæfi manns. Það er vel hægt að framkalla þörf á rándýrum aðgerðum með hamsatólgsáti, reykingum eða klettastökki. En það hlýtur að mega a.m.k. að mega staldra við þá forsendu að viðkomandi eigi alltaf heimtingu úr vasa samborgara sinna sem e.t.v. kjósa að tefla ekki á tæpasta vað.

En gefum okkur að heilbrigðiskerfið eigi alltaf að þenjast úr á kostnað skattborgaranna um leið og einhverjir þeirra taka upp líferni sem skaðar líkama þeirra. Stöndum við þá uppi með að hverskyns frelsisskerðing sé rétt sem leiðir til minni útgjalda fyrir heilbrigðiskerfið?

Ef í dag væru lög um að ríkið skammtaði hollum mat ofan í borgarana með eða án vilja þeirra, mætti þá ekki gefa matarræði frjálst vegna fyrirsjáanlegra stóraukinna útgjalda heilbrigðiskerfisins?


Lagaskrýtla nr. 1.

Leigubílalög banna fólki að aka hverju öðru um (nema ókeypis) og gefin eru út einkaleyfi til þess að taka gjald fyrir akstur. Það er því fámennur hópur sem löggjafinn beinlínis setur í einokunaraðstöðu á hverju svæði fyrir sig. Komið er í veg fyrir hvers konar hagræði í greininni með því að banna framsal leigubílaleyfa. Það er því ekki von á öðru en ökumenn sem telja sig geta boðið neytendum upp á góðan og öruggan akstur sitji um slík leyfi og fúlsi ekki við þeim jafnvel þótt losni þau ekki fyrr en við andlát fyrri leyfishafa.

Svona hljóðar 8. mgr. 9. gr. laga nr. 134/2001 um leigubifreiðar:

Heimilt er að leyfa eftirlifandi maka leyfishafa að nýta atvinnuleyfi hans í allt að þrjú ár eftir andlát leyfishafa, þó eigi lengur en til þess tíma er leyfishafi hefði misst leyfið fyrir aldurs sakir ef hann hefði lifað, þó aldrei skemur en tólf mánuði. Þegar maki er ekki til staðar er dánarbúi leyfishafa heimilt að nýta atvinnuleyfi hans í allt að þrjá mánuði eftir andlát leyfishafa en þó ekki eftir lok búskipta.

Í greinargerð með frumvarpinu er ekki minnst einu orði á þessa sérstöku reglu. Ekki heldur í greinargerð með lögum nr. 61/1995 sem giltu um þessi málefni fyrir tíð núgildandi laga. Sömu sögu er að segja um lögskýringargögn vegna laga nr. 77/1989 er giltu þar áður. Ég hef ekki kynnt mér lögskýringargögn vegna laga nr. 36/1970 en ekkjureglan var í gildi samkvæmt þeim lögum einnig.

Þar sem þetta ákvæði hefur verið í gildi í marga áratugi án nokkurrar sýnilegra röksemda eða rökræðu af hálfu löggjafans er e.t.v. kominn tími til að spyrja hvað sé eiginlega málið.

Ég er ekki hlynntur einkarétti lögmanna á því að flytja mál fyrir rétti og þætti það enn undarlegra ef erfingjar mínir fengju að nýta þann einkarétt sem mér var úthlutað eftir að ég félli frá.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband