Af rónunum í Austurstræti

Vegna vinnu minnar geng ég daglega um Austurstræti. Stundum koma til mín rónar og biðja um pening. Sjaldnast er ég með klink á mér og verð því að tilkynna rónanum að því miður noti ég nær eingöngu kort. Ég bíð eftir þeim yfirvofandi degi þegar rónarnir verða komnir með posa. Mikið held ég að muni hlakka í rónanum þá þegar ég tilkynni honum að ég sé bara með kort.

Þrátt fyrir að ég hafi talið það herbragð snilldarlegt hjá Vilhjálmi borgarstjóra og ÁTVR, að fjarlægja litla kælinn í vínbúðinni í Austurstræti, og talið einsýnt að við það myndu rónarnir snúa lífi sínu til betri vegar (því hver nennir að drekka volgan bjór daginn út og inn), þá hafa þau undur og stórmerki gerst að rónarnir hafa haldið áfram að drekka áfengi. Sumir hafa reyndar snúið sér að kardimommudropum þar sem kjörhitastig til neyslu á þeim hærra en bjórs. Eftir stendur þó að margir rónar drekka enn bjór þótt ókældur sé.

Ég er samt ekki á því að ÁTVR eigi að gefast upp á viðleitni sinni til að fá rónana til að hætta að drekka. Mín tillaga er sú að fjárfest verði í hitaskápum, svona eins og er að finna á pítsustöðum, og öllum bjór verði komið þar fyrir. Hann væri þá kannski um 20°C heitur og með öllu ódrekkandi, jafnvel fyrir róna. Það myndi líka efla verslun með kardímommudropa. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sævar Finnbogason

Takk

Stórskemmtileg færsla.

Sævar Finnbogason, 17.11.2007 kl. 12:26

2 Smámynd: Linda litla

Ég get alveg lofað þér því að ef að þú ert róni þá er þér alveg sama þó að bjórinn sé volgur.

Og þegar sá tími kemur að rónar fái posa þá verður örugglega komin rónavörn á kortin.

By the way....... orðið "róni" er ljótt orð. Notum frekar fyllibyttu he he he

Linda litla, 17.11.2007 kl. 13:47

3 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Dálíð íronísk færska, en fyndin.  Þegar ég var á síðutogurunum í "gamla daga" löngu fyrir SÁÁ og allar afvötununarstöðvar var stundum komið með eitt holl af rónum til að fylla upp í hausatöluna. Það þurfti ekki að spyrja að því að allt vín var tekið af þeim  en þeir voru samt ófærir til vinnu á útstýminu, en eftir eþb 2-3 sólahringa reyndust sumir þeirra víkingar til vinnu og afbragðs menn í umgengni. Margir hættu alveg að drekka og urðu nýtir þegnar, þó þeir kæmust aldrei í snertinu við afvötnunarsérfræðinga. Einu meðferðarúrræðin voru að ráða sig á togara, helst á salt. Menn gengu að vísu ekki um á hvítum sloppum og fóru í þerapíu hjá sálfræðingum en svei mér þá ef árangurinn var ekki betri.

Sigurður Þórðarson, 17.11.2007 kl. 14:47

4 Smámynd: Ingi Braga

þetta er nú svolítið ósanngjarnt gagnvart villa að stríða honum svona mikið út af þessu kælamáli. Ég held að það hafi frekar verið vegna þrístings veitingamanna í miðbænum sem hann tók upp á að láta slökkva á skápnum.  Þetta hafði ekkert með rónana að gera vona ég auðvitað drekka þeir hvað sem er.  Það er að mínu mati ekki eðlilegt fyrir veitingahús eins og þau sem standa við austurvöll að fólk geti gengið inn í ÁTVR og keypt sér kaldan öl og sest á stéttina og drukkið þar í góðum gír meðan veitingahúsin eru að bjóða upp á veitingar á svæðinu.  Svo á þessum fáu góðu dögum kemur mikill fjöld fólks sem verslar úr þessum kælum og Austurvöllur verður eins og vígvöllur.  Sem sagt ég vona að villi hafi verið að standa við bakið á veitingamönnum  með þessari ákvörðun og ég skil það.

Ingi Braga, 17.11.2007 kl. 20:50

5 Smámynd: Geir Ágústsson

Inga, sem talsmaður kaffihúsaeigenda, and-talsmaður bjórunnenda og neytenda og varnarmaður ríkisstýrðar neyslu þá þakka ég fyrir innlegg þitt. Ég er hins vegar ósammála þér.

Geir Ágústsson, 17.11.2007 kl. 21:04

6 Smámynd: Ingi Braga

ég ætlaði nú ekki að taka neina afstöðu um þennan gjörning hans villa en vildi varpa ljósi á hina hliðina.  fer samt ekki ofan af því að það er eitthvað skrítið við að selja kaldan bjór út úr ÁTVR og veitingahúsin jörðuð ef einn bjór fer út úr húsi og bannað að selja vín í verslunum.  Það er eitthvað bogið við þetta.  Vel skotið samt

Ingi Braga, 17.11.2007 kl. 22:17

7 Smámynd: Geir Ágústsson

Af einhverjum ástæðum virðast kaffihús útum allan heim dafna þrátt fyrir óheft aðgengi að köldu og heitu áfengi til fólks alls niður í 16 ár (Danmörku, til dæmis). Það væri miklu frekar reykingabannið sem sker í tekjulind kaffihúsa, en það er önnur saga.

Ætlaði mér ekki að vera ókurteis en mér finnst íslenskur þorpsbúahugsunarháttur ekki koma vel út í milliríkjasamanburði. 

Geir Ágústsson, 17.11.2007 kl. 23:16

8 Smámynd: Páll Geir Bjarnason

Ef Villi bannaði bjórkælingu til að þóknast veitingamönnum var hann óbeint að hvetja til lögbrots þar sem viðskiptavinum kaffihúsanna er óheimilt að bera áfenga drykki út á Austurvöll.

Annars er þetta ófremdarástand í miðbænum, bannað að reykja inni og bannað að drekka úti. Djöfull er ég sáttur við að vera hættur báðu

Páll Geir Bjarnason, 18.11.2007 kl. 07:56

9 Smámynd: Viðar Eggertsson

Tek undir með Inga Boga. Það nær auðvitað ekki nokkurri átt að fólk geti keypt (kaldan!) bjór á eðlilegu verði í námunda við vínveitingastaði. Auðvitað varð að stoppa það, eins og hann hefur bent á að Villi var að gera.

Þá er líka óhæfa að Bæjarins bestu sé að selja veitingar á hlægilegu verði, og rándýr og fín veitingahús allt í kring! Þetta hefði Villi átt að stoppa líka. En nú er hann búinn að missa völdin. en ég er viss um að það er bara tímabundið. Hann mun koma aftur og láta loka Bæjarins bestu sem er fyrir löngu orðið tímabært..... Og vonandi líka 10-11 sem selur allskonar samlokur og skyndibitafæði á hlægilegu verði og er að ganga af veitingahúsunum dauðum.

Við viljum ekki svona val. Við viljum bara dýrar veitingar og sko enga samkeppni. Best væri ef öll veitingasala í miðborginni væri í eigu sama aðila, þá væri hægt að halda uppi verulega háu verði, án ásökunar um verðsamráð!

Lifi okrið! Takk Ingi Bogi, vona að þú verðir borgarstjóri sem fyrst.

Viðar Eggertsson, 18.11.2007 kl. 09:47

10 Smámynd: Oddgeir Einarsson

Ég þakka áhugaverðar athugasemdir og vil í tilefni þeirrra benda á:

Fullur: Gott hjá þér að gefa peninga til þeirra sem þurfa þá. Ég tjáði mig ekki um það í færslunni hvort ég hefði gefið þessum mönnum peninga og ætla ekki að gera það enda hefði tilgangurinn með því ekki verið sá að kaupa mér góða ímynd.

Oddgeir Einarsson, 18.11.2007 kl. 19:52

11 identicon

Það var Jón Sólnes gamli þingmaðurinn og bankastjórinn sem sagði að maður kæmist varla hér yfir Austurvöll fyrir mönnum sem biðji mann um gamlan 100 kall sem ég væri hættur að nota.!

Margrét Sig (IP-tala skráð) 20.11.2007 kl. 19:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband