Um hvað snýst umræðan?

 

Ímyndum okkur tvær afskekktar eyjar, A og B.

Á eyju A ríkir lýðræðislega kjörin stjórn sem pyntar og drepur alla sem eru henni andvígir auk þess að leggja háa skatta á minnihlutann og styrkja meirihlutann með peningagreiðslum. Á eyju A ríkir semsagt meirihlutakjörin ógnarstjórn.

Á eyju B ríkir einræðisstjórn sem ríkir með hervaldi og er ekki kosin af neinum. Þessi stjórn virðir hins vegar grundvallarmannréttindi allra til lífs, tjáningar o.s.frv. og hefur það eina markmið að koma í veg fyrir valdbeitingu og ofbeldi landsmanna gagnvart hverjum öðrum. Á eyju B ríkir því frjálslynd einræðisstjórn.

Dag einn ákveða stjórnvöld á eyju A að steypa stjórn eyju B af stóli og sameina hana sínu lýðræðislega ríki, vitandi þá gefnu staðreynd að ríkjandi ógnarstjórn nyti einnig stuðnings meirihluta fólks á eyjunum eftir sameininguna.

Væri réttlætanlegt af hálfu stjórnvalda á eyju A að koma á lýðræði í þessu tilviki jafnvel þótt við gefum okkur þá forsendu að enginn léti lífið í átökum um eyju B?

Þögli minnihlutinn svarar þessu neitandi og vonar að umræður um réttmæti tiltekinna yfirvalda yfir fólki snúist meira um réttmæti aðgerða stjórnvalda gagnvart fólkinu sínu en hvort slík stjórnvöld og aðgerðir þeirra njóti stuðnings meirihluta landsmanna.

Oft snúast umræður um alþjóðapólitík um að koma þurfi á lýðræði hér og þar og að virða þurfi rétt þjóða til að mynda eigið ríki á tilteknu landsvæði. Hvorugt tryggir á nokkurn hátt að mannréttindi einstaklings á tilteknu svæði verði betur virt.

Ef mannréttindi einstaklinga væru í forgrunni snerist umræðan um Tíbet um hvort einstaklingar á landsvæði Tíbet yrðu síður þaggaðir niður, drepnir eða pyntaðir ef kommúnistastjórninni yrði komið frá. Einnig, ef mannréttindi væru útgangspunkturinn í umræðunni, þá væri umræðan um gróf mannréttindabrot kommúnistaflokksins í Kína gegn eigin fólki ekki síður í brennidepli en málefni Tíbets. Enda eru mannréttindi Kínverja jafnmikilvæg og mannréttindi Tíbeta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég veit nú ekki hversu sammála ég er því að um prýðisgóða samlíkingu sé að ræða.... Það að innlima annað ríki sökum þess að þar ríki ekki lýðræði samræmist á engan hátt nokkurs konar nútíma hugmyndum um lýðræði. Enda er lýðræði þar sem ein þjóð stjórnar annarri þjóð ávalt þversögn..Né er ég sammála því að það tryggi ekki á nokkurn hátt mannréttindi að ákveðin þjóð fái að stofna sitt eigið ríki. Þar sem í vissum tilvikum, eins og til dæmis í tilviki Tíbet og Kosovo, hafa slíkar þjóðir rétt til þess að stofna sitt eigið ríki á grundvelli rétts til sjálfsákvörðunar. Það er, það eru mannréttindi við vissar aðstæður að stofna eigið ríki.Réttur til sjálfsákvörðunar telst til svo kallaðar þriðju kynslóðar mannréttinda eða það er mannréttindi hópa... Og er sem slíkur verndaður af mannréttindayfirlýsingu SÞ, svo og Sáttmálanum um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og Sáttmálanum um efnahagsleg og félagsleg réttindi.Önnur mannréttindi eru innihaldslaus ef réttur til sjálfsákvörðunar er brotinn.. Þannig er það ef til vill mikilvægustu mannréttindin sem til eru.... Mannréttindabrot kínverska stjórnvalda (eða öllu heldur meint) eru þar af leiðandi allt annars eðlis er varðar Tíbet og síðan er varða Kínverja. Sem þýðir ekki að mannréttindi hvors hóps um sig séu ekki hin sömu.

pr. jájá (IP-tala skráð) 19.3.2008 kl. 17:58

2 Smámynd: Oddgeir Einarsson

Sæll nafnleysingi,

ég átti einmitt von á því að svokölluð mannréttindi hópa myndu detta inn ef umræða skapaðist um færsluna.

Hér er um mjög mikilvægt grundvallaratriði að ræða. Ég tel að raunveruleg mannréttindi sé réttindi sem hver einstaklingur hafi og óréttmætt sé að brjóta. Ég tel „mannréttindi hópa“ vera misskilning á mannréttindahugtakinu alveg sama í hversu margar fræðibækur eða alþjóðasáttmála slíkt hugtak ratar.

Mér finnst rétturinn til sjálfsákvörðunar yfir eigin lífi mikilvægari en réttur meirihluta á tilteknu landsvæði til að ráða yfir öllum þeim sem á landsvæðinu búa. Þess vegna finnst mér (af tvennu illu reyndar) mannréttindi vera betur virt á eyju B en á eyju A.

Oddgeir Einarsson, 20.3.2008 kl. 16:40

3 identicon

Skemmtileg og góð færsla Oddgeir.


Vekur upp spurningar hvort lýðræði sé í raun jafn gott fyrirkomulag og margir vilja láta. Tryggir lýðræði alltaf grundvallaréttindi betur en aðrar tegundir stjórnarfars? Ég er ekki viss um það en lýðræði virðist þó oft halda fólki frá því að skipta um valdhafa með miklum blóðsúthellingum.

Hópahyggjuréttindi sem þú vitnar í eru í sjálfum sér ekkert annað en réttur eins einstaklings yfir auðrum. Réttur til einhvers er ávlat bundinn því að einhver annar veitir þér þann rétt, þvingað eða óþvingað.


Hr. nafnlaus, Réttur einstaklings að vera ekki kúgaður, þvingaður eða beittur ofbeldi á nokkurn annan hátt er spruttinn upp frá sjálfsvarnarrétti hvers einstaklings. Þessi réttur ef svo má kalla er ávalt gagnkvæmur þ.e. ef þú virðir ekki minn rétt virði ég ekki þinn. Af hverju segi ég sjálfsvarnarrétti einstaklings? Það er í raun einfalt. Ég mun ávalt verja sjálfan mig, eignir mínar og frelsi mitt gegn ágangi annarra og sama gera aðrir við það myndast gagnkvæmur skylningur sem við köllum grundvallaréttindi í dag. Nú geta vissulega margir einstaklingar komið sér saman um að standa sameiginlega vörð um þessi grundvallaréttindi en sem hópur hafa þeir aldrei meiri rétt en sem einstakilngar. Réttur hópa er því ekki til, punktur.


Kolbrún, það er rétt að lýðræðistjórnin þarf að sækja umboð sitt til kjósenda. Þrátt fyrir það er lýðræði bara enn ein tegund kúgunar. Lýðræði er ávalt kúgun meirihlutans. Hugmyndir margra vinstrimanna um t.d. íbúalýðræði eru því ekkert annað en hugmynd um að sem flestir ráði sem mestu um sem flest og hver græðir á því? Stjórnvöld eiga bara að tryggja grundvallaréttindi og leyfa einstaklingum að sjá um rest.


Það má að auki benda á að Hong Kong hefur aldrei búið við lýðræði en þrátt fyrir það eru íbúar þar þeir ríkustu í heiminum, eitt best menntaðir og ein hamingjusamasta þjóð í heimi.

Vilhjálmur Andri Kjartansson (IP-tala skráð) 21.3.2008 kl. 02:55

4 identicon

Mér er nokkuð sama hvort hér er lýðræði eða ekki. Ég vil bara hafa stjórnarskrá sem ver mín grundvallaréttindi og dómstóla sem eru sæmilega óspiltir. Stjórnarskráin sem við höfum núna er allt í lagi nema hvað hún er helst til of löng og með of mörgum fyrir vara ákvæðum. Til dæmis eignaréttur er heiglagur nema..., Atvinnufrelsi nema.... Það þarf til dæmis ekki nema eitt lítið deiliskipulag og bles bles landið þitt. Þú færð það bætt en hefur ekkert með það að segja hvað verður um það. Hér er svon hindraðar ráðstefnur sem ekki eru í náðinni hjá femínistum og móturhjólakappar meiga ekki koma inn í landið því þeir gætu hugsanlega verið hættulegir.

Vilhjálmur Andri Kjartansson (IP-tala skráð) 21.3.2008 kl. 15:23

5 identicon

Ég vissi ekki að svo mörg lög væru brotin við ekki lengri bíltúr en upp í skóla og vinnu. Ég þakka fyrir þær upplýsingar. Ég verð þó að viðurkenna það að ég hef aldrei nennt að lesa umferðalögin nema nokkur ákvæði þegar ég var í skaðabótarétti hér um árið.

Grundvallaréttindi eru í raun neikvætt frelsi einstaklinga þ.e. réttur sem er ekki bundinn því að fá hann frá einhverjum. Það er í sjálfum sér ekkert flóknara en það. Stjórnarskráin og stjórnsýslulögin eru ágæt útaf fyrir sig en það er samt  nokkuð um félagsleg réttindi og oftúlkun í þágu lýðskrums, hópahyggju.

Ég sagði aldrei að dómstólar hér væru spilitir og ég er nokkuð viss um að spilling sé algjör undantekning í íslensku dómskerfi. 

Vilhjálmur Andri Kjartansson (IP-tala skráð) 21.3.2008 kl. 17:58

6 identicon

Annars er þetta meirihlutaræði (lýðræði) búið að þjóna okkur sæmilega til að viðhalda mannréttindum. Verst er að kommúnistar og aðrir vinstrimenn hafa tekið þetta hugtak upp sem "hópréttindi". Það náttúrulega fáránlegt að meirihluti eða minnihluti séu að vasast í málum einstaklinga á ákveðnum afmörkuðum lögum(svæði).

Vilhjálmur Andri Kjartansson (IP-tala skráð) 21.3.2008 kl. 18:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband